Öruggur sigur Egypta

Ahmed El-Ahmar að skora fyrir Egypta í leiknum í dag.
Ahmed El-Ahmar að skora fyrir Egypta í leiknum í dag. AFP

Egyptaland bar sigurorð af Túnis 30:23 í milliriðlakeppninni á HM í handbolta í dag og þar með eiga Egyptar enn möguleika á að ná fjórða sætinu í milliriðli tvö og spila um 7. sætið á mótinu sem veitir þátttökurétt í umspili um sæti á Ólympíuleikunum.

Ef Ungverjar tapa með fimm mörkum eða meira fyrir Norðmönnum síðar í dag ná Egyptar fjórða sætinu í milliriðlinum. Bæði Ungverjar og Egyptar eru með 3 stig og gerðu jafntefli í innbyrðisviðureign sinni.

Egyptar höfðu undirtökin allan tímann og voru fimm mörkum yfir í hálfleik 15:10. Yahia Omar var markahæstur í liði Egypta með 7 mörk og Ahmed Elahmar skoraði 6. Á heimsmeistaramótinu eftir tvö ár verða Egyptar gestgjafar. Oussama Boughanmi var atkvæðamestur í liði Túnis með 6 mörk. Túnis fékk ekki stig í milliriðlinum og endar í 12. sæti á HM, næst á eftir Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert