Töpuðum fyrir betra liði í kvöld

Kristján Andrésson.
Kristján Andrésson. AFP

Kristján Andrésson og strákarnir hans í sænska landsliðinu urðu að bíta í það súra epli að komast ekki í undanúrslitin á heimsmeistaramótinu í handknattleik eftir fjögurra marka tap 30:26 á móti Dönum í lokaumferð milliriðlakeppninnar í Herning í Danmörku í kvöld.

„Fyrst af öllu þá óska ég Dönum til hamingju með að vera komnir í undanúrslitin. Við töpuðum fyrir betra liði í kvöld. Við börðumst hart en Danirnir voru einfaldlega betri,“ sagði Kristján á fréttamannafundi eftir leikinn.

„Við fórum illa með mörg góð færi og það reyndist dýrkeypt. Ég óska Dönum góðs gengis í undanúrslitunum,“ sagði Kristján en hans menn mæta Króötum í leiknum um 5. sæti á heimsmeistaramótinu í Herning á laugardaginn.

Undir stjórn Kristjáns höfnuðu Svíar í 6. sæti á HM í Frakklandi fyrir tveimur árum en þeir lentu í 2. sæti á Evrópumótinu í Króatíu í fyrra.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert