Tveir kaflar fóru með leikinn

Guðmundur Þórður Guðmundsson undir leikslok í viðureigninni við Brasilíu á …
Guðmundur Þórður Guðmundsson undir leikslok í viðureigninni við Brasilíu á HM í dag. AFP

„Það sem fór með leikinn voru tveir kaflar í leiknum, upphafskaflinn þegar Brasilíumenn skoruðu fyrstu fimm mörkin og síðan var annar kafli í byrjun síðari hálfleiks þegar við byrjum eins og í fyrri hálfleik,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, daufur í bragði í samtali við mbl.is í Köln í dag eftir tap í lokaleik heimsmeistaramótsins gegn Brasilíu, 32:29.

„Síðustu tíu mínúturnar í fyrri hálfleik voru góðar og ég hafði þá trú þegar við fórum inn í hálfleik að við værum komnir á skrið. Sú varð ekki raunin þegar á hólminn var komið. Við hentum boltanum beint í hendurnar á Brasilíumönnum í fyrstu sóknunum. Ég skrifa þessi mistök á reynsluleysi,“ sagði Guðmundur sem var afar vonsvikinn þegar mbl.is náði tali af honum.

„Það má segja þetta hafi verið eltingarleikur eftir að við lentum undir í byrjun síðari hálfleiks. Eltingarleikur þar sem við vorum alltaf á eftir þótt í fáein skipti tækist okkur að jafna metin, nær komumst við ekki.“

Guðmundur sagði að það jákvæða við leik íslenska liðsins hafi verið fjöldi hraðaupphlaupa.  Þau hafi verið að minnsta kosti 16. Annað í leik liðsins hafi ekki tekist sem skyldi. „Varnarleikurinn var erfiður á köflum og því miður fengum við ekki þá markvörslu sem við þurftum á að halda til þess að fleyta okkur yfir hjallana.“

Guðmundur segir að kannski geri hann of mikla kröfur til liðsins sem er að stíga sín fyrstu skref á stórmóti og hafi auk þess misst þrjá reynslumikla leikmenn í meiðsli. Arnór Þór Gunnarsson, sem hafi verið besti maður liðsins og Aron Pálmarsson, fyrirliða og einn fremsta handknattleiksmann heims og leiðtoga liðsins. Guðjón Valur Sigurðsson hafi meiðst fyrir mót.  „Mjög margir leikmenn eru að stíga sín fyrstu skref á mótinu. Það auðveldar okkur róðurinn að missa út reynslumikla menn. Þess vegna má segja að þetta hafi verið enn erfiðara en ella,“ sagði Guðmundur Þórður og bætti við.

„Engu að síður er það ekki góð tilfinning að enda mótið á þessum nótum en við verðum að halda áfram. Næsta verkefni verður að halda áfram í undankeppni EM í vor og aftur í byrjun sumars. Liðið fór vel af stað fyrr í vetur í undankeppninni og þarf að fylgja byrjuninni eftir og komast inn á EM eftir ár. Einnig verðum við að fikra okkur áfram og verða betri á öllum sviðum,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, í samtali við mbl.is í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert