Lokaleikurinn vonbrigði

Elvar Örn Jónsson niðurlútur eftir tapið í gær.
Elvar Örn Jónsson niðurlútur eftir tapið í gær. AFP

„Það eru vonbrigði að enda mótið á þessum nótum gegn Brasilíumönnum,“ sagði Elvar Örn Jónsson, einn af betri leikmönnum íslenska landsliðsins í tapleiknum við Brasilíu, 32:29, á heimsmeistaramótinu í Þýskalandi í gær. Með tapinu og tapi Túnisbúa fyrir Egyptum í hinum milliriðlinum varð ljóst að Ísland hafnaði í 11. sæti að þessu sinni.

Þetta er í fyrsta sinn sem íslenska karlalandsliðið í handknattleik tapar fyrir Suður-Ameríkuþjóð á stórmóti í handknattleik. Elvar Örn var markahæstur í íslenska liðinu í leiknum með sjö mörk í tíu skotum og lék með í nærri 50 mínútur.

„Þetta voru ekki úrslitin sem við stefndum á í lokaleiknum. En við getum tekið margt gott með okkur heim þótt ekki hafi allt tekist hjá okkur,“ sagði Elvar, sem var ánægður með lokakaflann í fyrri hálfleik þegar íslenska liðið vann upp fimm marka forskot Brasilíumanna með því að skorað sjö mörk gegn tveimur á um tíu mínútum. Svo virtist sem íslenska liðið væri komið með blóð á tennurnar þegar það gekk inn í klefa í hálfleik. Fljótlega í síðari hálfleik varð ljóst að svo var ekki.

„Þá fórum við aftur að gera tæknileg mistök í sókninni, flest klaufaleg, auk þess sem varnarleikurinn gekk ekki sem skyldi hjá okkur. Við lærum af mistökunum og förum með það jákvæða í farteskinu heim og komum sterkari til baka á næsta stórmót,“ sagði Elvar Örn Jónsson, 21 árs gamall, sem var að taka þátt í sínu fyrsta stórmóti í flokki fullorðinna.

Nánar er fjallað um leik Íslands og Brasilíu í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert