Of margt fór úrskeiðis gegn Brasilíumönnum

Ólafur Guðmundsson og Ólafur Gústafsson reyna að stöðva Haniel Langaro …
Ólafur Guðmundsson og Ólafur Gústafsson reyna að stöðva Haniel Langaro í leiknum í gær. AFP

Íslenska landsliðið lék sinn lakasta leik í gær þegar það tapaði fyrir landsliði Brasilíu með þriggja marka mun 32:29, í lokaleik sínum á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla í Þýskalandi. Staðan að loknum fyrri hálfleik var jöfn, 15:15, eftir besta kafla íslenska liðsins í leiknum, síðustu 10 mínútur fyrri hálfleiks. Um var að ræða áttunda leik liðsins. Það vann þrjá þeirra og tapaði fimm og hafnar í 11. sæti sem var undir vonum. Markmiðið var að lenda í einu af tíu efstu sætunum, helst í sjöunda til áttunda sæti til að eiga möguleika á að komast í forkeppni Ólympíuleikanna á næsta ári.

Satt best að segja olli frammistaða íslenska landsliðsins vonbrigðum gegn Brasilíu. Uppstilltur sóknarleikur var slakur. Allt of mikið var um einföld mistök gegn 5/1 vörn brasilíska liðsins, vörn sem átti ekki að koma mönnum í opna skjöldu. Brasilíumenn komust hvað eftir annað auðveldlega inn í sendingar íslenska liðsins í sókninni. Einnig fóru alltof mörg opin færi í súginn.

Varnarleikurinn var upp og ofan. Það var eins og þreyta væri farin að segja til sín hjá mönnum svo að Brasilíumenn áttu auðvelt með að opna vörn liðsins. Markvarslan var slök, ef undan eru skildar síðustu tíu mínútur fyrri hálfleiks. Sá kafli var reyndar sá allra besti hjá íslenska liðinu. Það skoraði sjö mörk gegn tveimur og náði að jafna metin fyrir hálfleik.

Eins og gegn Frökkum á sunnudaginn hóf íslenska landsliðið leikinn í gær afar illa og lenti undir, 5:0. Þótt því tækist að jafna metin nokkrum sinnum, m.a. með fyrrgreindum kafla í lok fyrri hálfleiks þá tókst aldrei að ná frumkvæðinu.

Nánar er fjallað um tap Íslands fyrir Brasilíu í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert