SA fór upp fyrir Björninn með sigri

Orri Blöndal og félagar höfðu ástæðu til að fagna.
Orri Blöndal og félagar höfðu ástæðu til að fagna. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Íslandsmeistarar SA komust upp í annað sæti Hertz-deildar karla í íshokkíi í dag með sigri á Birninum, 4:3, þegar liðin mættust á svellinu fyrir norðan.

Eftir að hafa lagt upp mark fyrir þjálfarann Jussi Sipponen í fyrsta leikhluta tók Mikko Salonen til sinna ráða hjá SA. Hann skoraði tvö mörk í öðrum leikhlutanum áður en Kristján Kristinsson minnkaði muninn fyrir Björninn, 3:1.

Ingvar Þór Jónsson kom SA í 4:1 þegar rúmar fimm mínútur voru eftir af leiknum en þá kom áhlaup frá Birninum. Edmunds Induss minnkaði muninn í 4:2 þegar rúmar tvær mínútur voru eftir og mínútu síðar skoraði Alexander Medvedev og staðan 4:3 fyrir lokamínútuna.

SA hélt hins vegar út og uppskar sigur, 4:3. SA hafði sætaskipti við Björninn með sigrinum, hefur 17 stig í öðru sæti en Björninn er með stigi minna. SA er níu stigum á eftir toppliði Esju, sem á leik til góða gegn botnliði SR í kvöld.

Mörk/stoðsendingar SA:

Mikko Salonen 2/1
Jussi Sipponen 1/2
Ingvar Þór Jónsson 1/0
Orri Blöndal 0/1
Matthías Stefánsson 0/1
Sigurður Sigurðsson 0/1

Mörk/stoðsendingar Bjarnarins:

Alexander Medvedev 1/1
Kristján Kristinsson 1/0
Edmunds Induss 1/0
Ingþór Árnason 0/2
Eric Anderberg 0/1
Falur Guðnason 0/1

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert