Nú erum við á réttum stað í töflunni

Hart barist í leik SA og Bjarnarins í kvöld.
Hart barist í leik SA og Bjarnarins í kvöld. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Andri Már Mikaelsson, fyrirliði SA Víkinga, var sigurreifur eftir leik SA og Bjarnarins í kvöld í Hertz-deildinni í íshokkí. SA vann 4:1 þrátt fyrir að liggja í vörn síðustu 40 mínútur leiksins en liðið var 3:0 yfir eftir fyrsta leikhlutann. SA er nú þremur stigum á undan Birninum þegar tvær umferðir eru eftir af deildarkeppninni. SA steig því stórt skref í átt að sæti i úrslitakeppninni.

„Þetta var mikilvægur leikur og mikilvægur sigur upp á framhaldið,“ sagði Andri. „Nú erum við á réttum stað í töflunni en þurfum fleiri stig til að tryggja okkur í úrslitakeppnina. Nú vantar fjögur stig til að tryggja 2. sætið. Það eru bara tveir leikir eftir og þeir eru báðir úrslitaleikir.“

Nú lágu Bjarnarmenn á ykkur eftir að þið komust í 3:0. Voruð þið eitthvað þreyttir?

„Við vorum full „passívir“ í seinni hlutanum. Við þurftum að hafa mikið fyrir því að verja markið okkar í öðrum leikhlutanum, þegar við vorum alltaf með mann í refsiboxinu. Það tók eflaust eitthvað af okkur. Við spiluðum þetta bara skynsamlega, vorum með gott forskot og þéttum raðirnar. Þeir voru ekki að skapa sér mörg færi, skutu mikið og við réðum alveg við það, enda Jussi Suvanto öruggur í markinu.“

Nú kemur smá hlé hjá ykkur, ekki satt?

„Það er ágætt. Kvennalandsliðið er að spila hérna næstu dagana og þá verður smá hlé hjá okkur. Það er ágætt. Við erum búnir að spila mikið upp á síðkastið og það hefur verið álag. Okkur veitir ekki af smá hvíld.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert