Íslenskur sigur í upphitunarleik

Íslenska liðið fagnar marki Evu Maríu Karvelsdóttur.
Íslenska liðið fagnar marki Evu Maríu Karvelsdóttur. Ljósmynd/Ásgrímur Ágústsson

Íslenska kvennalandsliðið í íshokkí sigraði Nýja-Sjáland, 4:2, í vináttulandsleik í Skautahöllinni á Akureyri í gærkvöld en þetta var upphitun hjá báðum liðum fyrir 2. deild B á heimsmeistaramótinu sem hefst á Akureyri á mánudagskvöldið.

Ísland var yfir allan tímann. Fyrsta markið kom í fyrstu lotu og var það Birna Baldursdóttir sem speglaði pekkinum í markið eftir skot frá varnarmanninum Þorbjörgu Geirsdóttur.

Sunna Björgvinsdóttir skoraði annað mark Íslands snemma í annarri lotu og var það Silvía Rán Björgvinsdóttir sem átti stoðsendinguna. Stuttu seinna minnkaði Nýja-Sjáland muninn í 2:1 og urðu mörkin ekki fleiri í lotunni.

Rétt fyrir miðja þriðju lotu jók varnarmaðurinn Eva María Karvelsdóttir muninn fyrir Ísland í 3:1 og var það Sunna Björgvinsdóttir sem átti sendinguna á hana. Þær ný-sjálensku voru þó fljótar að svara fyrir sig með marki og halda uppi spennunni í leiknum.

Kristín Ingadóttir tryggði svo sigurinn fyrir Ísland þegar um 5 mínútur voru eftir af leiknum þegar hún náði frákasti eftir gott skot frá Silvíu Rán Björgvinsdóttur. 4:2 urðu því lokatölur leiksins.

Allir leikir Íslands á mótinu fara fram Skautahöllinni á Akureyri og hefjast allir klukkan 20.00 og er fyrsti leikur gegn Rúmeníu næsta mánudag. Þá mætir íslenska liðið einnig Mexíkó, Tyrklandi, Nýja-Sjálandi og Spáni, á þriðjudag, fimmtudag, föstudag og sunnudag. Miðasala fer fram á tix.is en nánar má fylgjast með mótinu, úrslitum leikja og tölfræði á vef Alþjóða íshokkísambandsins.

Anna Sonja Ágústsdóttir, til hægri, í baráttu við eina nýsjálenska.
Anna Sonja Ágústsdóttir, til hægri, í baráttu við eina nýsjálenska. Ljósmynd/Ásgrímur Ágústsson
Silvía Björgvinsdóttir sækir að marki Nýja-Sjálands.
Silvía Björgvinsdóttir sækir að marki Nýja-Sjálands. Ljósmynd/Ásgrímur Ágústsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert