Stórsigur Íslands í fyrsta leik á HM

Íslenska liðið fagnar einu af mörkum sínum í kvöld.
Íslenska liðið fagnar einu af mörkum sínum í kvöld. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Íslenska kvennalandsliðið í íshokkí vann í kvöld stórsigur á Rúmeníu, 7:2, í fyrsta leik sínum á heimsmeistaramótinu í 2. deild B sem fram fer í Skautahöllinni á Akureyri. 

Staðan var 3:0 strax að loknum fyrsta leikhluta og í öðrum hluta bætti íslenska liðið við fjórða markinu. Tvö mörk Rúmena í þriðja og síðasta leikhluta komu ekki að sök því Ísland bætti við þremur í viðbót og vann fimm marka sigur, 7:2.

Silvía Rán Björgvinsdóttir skoraði tvö marka Íslands og þær Birna Baldursdóttir, Flosrún Vaka Jóhannesdóttir, Kristín Ingadóttir, Karen Þórisdóttir og Sunna Björgvinsdóttir skoruðu eitt mark hver.

Ísland er því með þrjú stig eftir fyrstu umferðina eins og Nýja-Sjáland, sem vann Tyrkland, 5:3, og Mexíkó sem vann Spán 3:1.

Mörk/stoðsendingar Íslands:

Silvía Rán Björgvinsdóttir 2/1
Birna Baldursdóttir 1/1
Flosrún Jóhannesdóttir 1/1
Kristín Ingadóttir 1/0
Karen Þórisdóttir 1/0
Sunna Björgvinsdóttir 1/0
Jónína Guðbjartsdóttir 0/2
Anna Ágústsdóttir 0/1
Diljá Björgvinsdóttir 0/1
Eva María Karvelsdóttir 0/1
Guðrún Marín Viðarsdóttir 0/1

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is, auk þess sem leikurinn var í beinni útsendingu sem sjá má neðst í fréttinni.

Sunna Björgvinsdóttir komin í færi gegn Rúmeníu í kvöld.
Sunna Björgvinsdóttir komin í færi gegn Rúmeníu í kvöld. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

60. Leiknum er lokið með 7:2 sigri Íslands.

60. MARK! Staðan er 7:2 fyrir Ísland. Aldursforsetinn Birna Baldursdóttir skorar með þrumuskoti.

53. MARK! Staðan er 6:2 fyrir Ísland. Rúmenar skora aftur eftir hnoð framan við marki Íslands. Nú er það Magdolna Popescu sem kemur pökknum í netið.

50. MARK! Staðan er 6:1 fyrir Ísland. Diljá Björgvinsdóttir brunar fram og á skot sem er varið. Karen Þórisdóttir fylgir á eftir og smellir pökknum í autt markið. 

45. MARK! Staðan er 5:1 fyrir Ísland. Ísland svarar fyrir sig í hvelli. Nú er það Kristín Ingadóttir sem skorar eftir gott samspil.

43. MARK! Staðan er 4:1 fyrir Ísland. Rúmenar koma pökknum í mark eftir klafs fyrir framan mark Íslands. Alina Oprea skoraði markið.

40. Öðrum leikhluta er lokið og staðan er 4:0. Rúmenar komu ákveðnir til leiks og gerðu sig líklega til að skora. Elise Valjaots varði hins vegar allt frá þeim. Íslensku leikmennirnir voru sí og æ sendir í refsiboxið og þurfti liðið að spila tveimur færri í tæpar tvær mínútur. Eftir að þeim refsingum lauk náðu stelpurnar vopnum sínum á ný og bætti fljótlga við fjórða markinu.

30. MARK! Staðan er 4:0 fyrir Ísland. Ísland hélt út og um leið og orðið var jafnt í liðum ruku leikmenn í sókn. Silvía Rán Björgvinsdóttir batt endahnútinn á hana með góðu skoti sem sendi pökkinn í fjærhornið.

26. Rúmenar hafa sótt í sig veðrið og hafa komist í nokkur ágæt færi. Elise Valjaots hefur  varið öll skot Rúmena. Nú er Karen Þórsdóttir send í refsiboxið. Guðrún Marín Viðarsdóttir fer svo sömu leið. Nú hljóta Rúmenar að skora.

Diljá Björgvinsdóttir með pökkinn gegn Rúmeníu í kvöld.
Diljá Björgvinsdóttir með pökkinn gegn Rúmeníu í kvöld. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

20. Fyrsta leikhluta er lokið og staðan er 3:0. Ísland hefur ráðið lögum og lofum það sem af er og eingöngu góð markvarsla rúmenska markvarðarins hefur komið í veg fyrir fleiri mörk. Útlitið er mjög gott.

Mörk/stoðsendingar:

Ísland: Silvía Rán Björgvinsdóttir 1/0, Flosrún Vaka Jóhannesdóttir 1/0,  Sunna Björgvinsdóttir 1/0, Guðrún Marín Viðarsdóttir 0/1, Birna Baldursdóttir 0/1.

17. Ísland missir annan mann í refsingu og spilar liðið nú tveimur færri.

16. MARK! Staðan er 3:0 fyrir Ísland. Silvía Rán Björgvinsdóttir vinnur pökkinn og brunar með hann alla leið að merki Rúmena. Síðan setur hún þann svarta í bláhornið.

16. Leikmaður Rúmena er sendur í refsiboxið fyrir að láta dólgslega.

16. Nú fá Rúmenar tækifæri á að minnka muninn. Védís Valdemarsdóttir er send í kælingu.

7. MARK! Staðan er 2:0 fyrir Ísland. Þetta mark var hálf furðulegt Sunna Björgvinsdottir átti misheppnað skot sem læddist framhjá markmanni Rúmena. Pökkurinn lak svo í stöngina og inn fyrir línuna.

6. MARK! Staðan er 1:0 fyrir Ísland. Flosrún Vaka Jóhannesdóttir sneiðir pökkinn í markið eftir mikinn hamagang fyrir framan mark Rúmena.

3. Rúmenar missa strax mann í refsiboxið. Ísland er í stórsókn.

1. Leikurinn er hafinn.

0. Þrátt fyrir að enn sé drjúgur tími í leikinn þá er allt að fyllast hér í Skautahöllinni á Akureyri. Öngþveiti er fyrir utan þar sem starfsmenn mótsins aðstoða ökumenn við að finna stæði. Blaðamannaaðstaðan hefur verið endurbætt. Búið er að setja gler í klefann okkar og hita hann upp.

0. Velkomin með mbl.is í Skautahöllina á Akureyri, þar sem Ísland spilar sinn fyrsta leik á HM. Mótherjinn er Rúmenía.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert