„Mætum trítilóðir á laugardaginn“

Andri Freyr Sverrisson, til vinstri, og Steindór Ingason þjarma að …
Andri Freyr Sverrisson, til vinstri, og Steindór Ingason þjarma að Akureyringnum Mikko Salonen í kvöld. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Andri Freyr Sverrisson var vafinn inn í handklæði þegar blaðamaður rakst á hann í búningsklefa Esjumanna eftir leik þeirra gegn SA-Víkingum í kvöld. Flestir félagar hans voru á sprellanum á leið úr eða í sturtu. Andri gaf sér smá tíma í spjall en Esjumenn lögðu SA 3:2 í leiknum og geta klárað einvígið á laugardag með sigri og orðið Íslandsmeistarar í fyrsta skipti.

„Þetta var seiglusigur hjá okkur. Það má segja að við höfum bara rétt marið þá. Þetta var mikil barátta allan leikinn og við náðum núna að klára 60 mínútur. Mér finnst við vera með þetta á tæpasta vaði og þeir hefðu alveg getað jafnað leikinn í 3:3. Við getum samt ekkert kvartað þar sem eiginlega allir leikirnir á tímabilinu hafa endað með sigri.“

Hvernig horfið þið svo á laugardaginn?

„Við erum bara jákvæðir. Við verðum að mæta trítilóðir til leiks. Við náum okkur í góðar Dominos-pizzur núna og flýtum fyrir endurheimtinni, teygjum vel á og undirbúum okkur vel fyrir leikinn á laugardag.“

Þú ert búinn að vinna nokkra titla með SA en ert nú að spila gegn gömlu samherjunum. Hvernig er það?

„Það eru auðvitað blendnar tilfinningar að hafa gömlu félagana að drulla yfir sig meðan á leik stendur. Svo eru reyndar allir vinir þegar leikurinn er búinn. Þetta er svolítið spes og það tók smá tíma að venjast þessu. Nú er ég hins vegar bara að spila með Esju, einbeiti mér að því og hugsa ekkert um hitt. Þeir eru óvinir mínir í 60 mínútur en ekkert meira en það,“ sagði Andri Freyr að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert