Esja er sigri frá Íslandsmeistaratitli

Leikmenn Esju kampakátir á bekknum í kvöld.
Leikmenn Esju kampakátir á bekknum í kvöld. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Deildarmeistarar Esju eru aðeins einum sigri frá því að tryggja sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í íshokkí eftir sigur á ríkjandi meisturum SA, 3:2, í öðrum leik einvígisins um titilinn í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld.

Leikurinn byrjaði með látum og staðan var orðin 1:1 eftir rúmar þrjár mínútur. Egill Þormóðsson skoraði fyrst fyrir Esju en Jóhann Már Leifsson jafnaði um hæl. Síðan var barist vel og lengi fram að næsta marki sem Esja skoraði skömmu fyrir lok fyrsta leikhluta. Þar var Pétur Maack að verki. Staðan 2:1 fyrir Esju.

Eina markið í öðrum leikhlutanum skoraði Andri Már Mikaelsson eftir snarpa sókn heimamanna. Staðan var því 2:2 fyrir lokaleikhlutann og mikil spenna í loftinu meðal fjölmargra áhorfenda.

Spennan hélst til leiksloka. Esja skoraði þriðja mark sitt snemma í þriðja leikhluta þegar Ólafur Hrafn Björnsson sneiddi pökkinn í mark úr þröngri stöðu. Heimamenn reyndu hvað þeir gátu til að jafna en það tókst ekki. Esjumenn fögnuðu því góðum sigri og nú bíða menn þar á bæ eftir laugardeginum en þá fer næsti leikur liðanna fram.

Aðalmunurinn á liðunum í kvöld má segja að hafi verið þegar liðin voru í yfirtölu. Esjumenn voru þá ávallt hættulegir, einokuðu pökkinn og sóttu hart að marki SA. Heimamenn aftur á móti gátu ekki nýtt sér liðsmun sinn til að skapa almennileg færi.

Tvö fyrstu mörk Esju komu einmitt þegar þeir voru í yfirtölu og virkuðu bæði frekar auðveld. Vörn SA hefði átt að geta bægt hættunni frá en fyrst svo var ekki nýttu Esjumenn sér það. Einnig má segja að það vanti alvöru potara í lið SA. Þjálfarinn Jussi Sipponen býr svo mikið til með leikni sinni og útsjónarsemi en hvað eftir annað renna sendingar hans fram hjá markinu án þess að nokkur sé þar mættur.

SA hefur enn ekki komist yfir í leikjunum sem búnir eru og hafa verið að elta Esjumenn í leikjunum. Esja er sterkara lið en þeir norðanmenn hafa sýnt það oftar en einu sinni að þeir eru ódrepandi. Því má alls ekki afskrifa þá í þessu einvígi.

Esja vann fyrsta leikinn 4:3 eftir framlengingu og getur tryggt sér titilinn á heimavelli á laugardag.

Mörk/stoðsendingar:

SA: Jóhann Már Leifsson 1/1, Andri Már Mikaelsson 1/0, Hilmar Leifsson 0/1.

Esja: Ólafur Hrafn Björnsson 1/1, Egill Þormóðsson 1/1, Pétur Maack 1/0, Björn Róbert Sigurðarson 0/2, Konstantyn Sharapov 0/1.

Refsimínútur:

SA: 12 mín.

Esja: 10 mín.

Esjumenn fagna eftir að Ólafur Björnsson, sem þarna er fremstur …
Esjumenn fagna eftir að Ólafur Björnsson, sem þarna er fremstur í flokki, gerði þriðja mark liðsins í kvöld. Það reyndist sigurmark leiksins. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Esjumenn fögnuðu að vonum vel eftir að leiktíminn rann út.
Esjumenn fögnuðu að vonum vel eftir að leiktíminn rann út. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Tveir fyrir einn handa áhugamönnum um slagsmál!
Tveir fyrir einn handa áhugamönnum um slagsmál! mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Akureyringurinn Jón Gíslason (14) mælir nokkur vel valin orð við …
Akureyringurinn Jón Gíslason (14) mælir nokkur vel valin orð við Patrik Podsednicek, eftir að sá síðarnefndi var rekinn af velli fyrir brot á Jóni í síðasta leikhluta. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Akureyringurinn Jón Gíslason og Konstantyn Sharapov, leikmaður Esju.
Akureyringurinn Jón Gíslason og Konstantyn Sharapov, leikmaður Esju. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Gauti Þormóðsson, þjálfari Esju, sallarólegur á bekknum á Akureyri í …
Gauti Þormóðsson, þjálfari Esju, sallarólegur á bekknum á Akureyri í kvöld. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Esjumenn fagna í kvöld, en í þetta skipti var reyndar …
Esjumenn fagna í kvöld, en í þetta skipti var reyndar ekki dæmt mark því úrskurður dómara var sá að pökkurinn hefði ekki farið inn fyrir marklínuna. En sunnanmenn fögnuðu innilega að leikslokum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
SA 2:3 SA opna loka
60. mín. SA Leik lokið Esja hefur þetta eftir mikla pressu heimamanna í lokin. Nú þurfa Esjumenn einn sigur í viðbót til að verða Íslandsmeistarar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert