„Gistum allir heima hjá mömmu“

Andri Freyr Sverrisson með sinn gamla liðsfélaga Ingvar Jónsson á …
Andri Freyr Sverrisson með sinn gamla liðsfélaga Ingvar Jónsson á hælunum. mbl.is/Golli

Andri Freyr Sverrisson var stór hluti af liði Esju í vetur sem tryggði sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil með sigri á SA eftir æsilegan vítabráðabana í Laugardalnum í kvöld. Andri er sjálfur að norðan og vann marga titla með SA, en hvernig var að fagna þeim stóra á kostnað gömlu félaganna?

„Þetta er í rauninni alveg jafnsætt og allir aðrir titlar. Þetta var ótrúlega jöfn úrslitakeppni og þetta var bara sýning, sérstaklega fyrir hina hlutlausu áhorfendur. Við tókum þetta á seiglunni og sigldum þessu heim,“ sagði Andri við mbl.is og segir það vera sætara að tryggja titilinn eftir svona ótrúlegan leik eins og í kvöld.

„Já, það verður alveg að segjast eins og er. Líka dagurinn, það er laugardagur. Við hefðum getað tapað þessum og mögulega unnið á Akureyri á þriðjudaginn. Það eru svona litlir hlutir sem við vorum ekki endilega að spá í fyrir leik sem skiptir máli upp á gamanið. Það er skemmtilegra að fagna hér með sínu fólki heldur en einhvers staðar í rútu,“ sagði Andri Freyr.

Óvenjulegt hópefli heima hjá mömmu

Og talandi um rútur, en Andri hafði sko rútusögu að segja. Eftir að Esja komst í 2:0 í einvíginu með sigri á Akureyri á fimmtudagskvöld lenti liðið heldur betur í hremmingum.

„Þegar við vorum að keyra heim eftir leikinn á fimmtudaginn þá festumst við upp á Öxnadalsheiðinni og þurftum að snúa við. Við gistum allir heima hjá mömmu á Akureyri, það var bara hrúgað út hressingu fyrir strákana og sofið um allt hús,“ sagði Andri og gat ekki annað en hlegið þegar hann hugsaði til baka.

Hristi þetta hópinn kannski bara enn frekar saman fyrir þennan leik?

„Já veistu, ég er ekki frá því. Líka þegar við vorum að leggja af stað heim í gær þá var heiðin enn lokuð svo við fórum leiðina í gegnum Siglufjörð svo ferðin tók enn þá lengri tíma og við vorum því enn lengur saman. Það hefur kannski skilað sér,“ sagði Andri Freyr léttur í bragði.

Hann segir að þessi úrslitakeppni verði lengi í minnum höfð.

„Hún verður það, og sérstaklega fyrst þetta er fyrsti Íslandsmeistaratitill Esju. Við höfum spilað ellefu sinnum við þetta SA-lið og unnið það tíu sinnum. Við spiluðum 27 leiki í vetur og þar komu 25 sigrar. Það segir bara sitt,“ sagði Andri Freyr Sverrisson við mbl.is.

Sjá:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert