Ótrúlegur leikur fyrir áhorfendur

SA Víkingar fagna í kvöld.
SA Víkingar fagna í kvöld. mbl.is/Golli

„Þetta var kannski ótrúlegur leikur fyrir áhorfendur og jafnvel leikmennina en ekki fyrir þjálfarana,“ sagði Jussi Sipponen, spilandi aðalþjálfari SA Víkinga, eftir dramatískan 8:7 sigur gegn Esju í framlengdum leik liðanna í Hertz-deild karla í íshokkí í kvöld. „Þú getur ekki hleypt inn 7-8 mörkum á þig, það er einfaldlega of mikið,“ bætti hann við.

Það stefndi allt í sigur SA í venjulegum leiktíma þegar Petr Kubos jafnaði metin fyrir Esju á síðustu sekúndunni með ótrúlegu langskoti af einhverjum 50 metrum, hvað hugsaði Sipponen þá?

„Ég ákvað bara að halda áfram og hugsa ekki um það. Framlenging var að koma og þetta gerist, þetta á ekki að gerast en það gerist.“

Hinn ungi Jakob Jóhannesson hefði átt að gera betur í því ótrúlega marki en hann bætti heldur betur fyrir það í framlengingunni þegar hann varði dauðafæri frá Pétri Mack, leikmanni Esju, rétt áður en Ingvar Jónsson tryggði SA sigurinn. Sipponen var ánægður með markmanninn unga þrátt fyrir hin óheppilegu mistök.

„Hann átti risastóra markvörslu í framlengingunni og borgaði heldur betur til baka.“

Hversu mikilvægt er það að heimsækja Íslandsmeistarana og sigra?

„Það er sterkt, við erum nú þegar komnir í kapphlaup fyrir úrslitakeppnina og hvert stig telur. Við fengum tvö og þeir eitt, við förum ánægðir heim með það.“

Sipponen skoraði sjálfur þrjú mörk í leiknum og er meðal markahæstu manna mótsins, er það vegna þess að hann er þjálfarinn og tekur sjálfan sig aldrei út af?

„Já, það er ástæðan. Ég get valið samherja mína og verið eins lengi á ísnum og ég vil, mér finnst gaman að spila og vill vera inni á,“ sagði hann og hló.

Að lokum sagði hann að svona leikur væri frábær auglýsing fyrir íþróttina en hann hefði þó, sem þjálfari, frekar viljað þægilegan sigur.

„15 mörk, eitt kemur sekúndu fyrir leikslok, það er frábært fyrir fólkið sem kemur að horfa á en sem þjálfari vil ég frekar sjá okkur vinna 3:0 frekar en 8:7 í framlengingu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert