Björninn hristi SR af sér

Ingþór Árnason skoraði þrjú mörk fyrir Björninn í kvöld.
Ingþór Árnason skoraði þrjú mörk fyrir Björninn í kvöld. mbl.is/Ómar Óskarsson

Björninn sigraði SR, 10:3, í Hertz-deild karla í íshokkí í Egilshöll í kvöld eftir að hafa fengið harða mótspyrnu frá botnliðinu lengi vel.

Sölvi Atlason og Kári Guðlaugsson komu SR í 2:0 á fyrstu 19 mínútunum en Alexander Medvedev minnkaði muninn fyrir Björninn og staðan var 2:1 eftir fyrsta leikhluta.

Artjoms Dasutins jafnaði fyrir Björninn, 2:2, og Ingþór Árnason kom Grafarvogsliðinu í 3:2. Ómar Söndruson jafnaði hins vegar um hæl fyrir SR og staðan 3:3 eftir 32 mínútur.

Þá tók Björninn leikinn í sínar hendur. Andri Helgason, Dasutins og Kristján Kristinsson skoruðu þrjú mörk áður en öðru leikhluta lauk og  staðan var 6:3 að honum loknum.

Þar með var mótspyrna SR á enda og Björninn bætti við fjórum mörkum í þriðja leikhluta. Ingþór skoraði tvö þeirra, Medvedev og Ellert Þórsson eitt hvor, og 10:3 var niðurstaðan.

Esja er með 42 stig á toppi deildarinnar, SA Víkingar eru með 38 stig, Björninn 28 stig en SR er enn án stiga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert