SA tók meistarana í kennslustund

Sigurður Sigurðsson og félagar í SA gátu fagnað vel í …
Sigurður Sigurðsson og félagar í SA gátu fagnað vel í kvöld. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Það var sannkallaður toppslagur í Hertz-deild karla í íshokkí í kvöld þegar Skautafélag Akureyrar tók á móti Íslandsmeisturum Esju. Það er skemmst frá því að segja að Norðanmenn unnu gríðarlega öruggan 5:1-sigur, skutust á toppinn og eiga enn tvo leiki til góða á meistaraliðið.

SA var 2:0 yfir eftir fyrsta leikhluta er Jóhann Már Leifsson og söngelska gamla brýnið Rúnar Freyr Rúnarsson skoruðu. Egill Þormóðsson minnkaði muninn fyrir Esju snemma í öðrum leikhluta og staðan að honum loknum var 2:1.

Í þriðja leikhluta var hins vegar snemma ljóst hvernig færi. Jordan Steger skoraði þá tvívegis og kom SA í 4:1 áður en Bart Moran innsiglaði 5:1-sigur SA rúmri mínútu fyrir leikslok og þar við sat.

SA er nú með 48 stig í efsta sæti, stigi á undan Esju, auk þess sem Akureyringar eiga tvo leiki til góða. Liðin munu svo mætast í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn og berjast nú um efsta sætið og heimaleikjaréttinn í einvíginu.

Mörk/stoðsendingar SA í kvöld:

Jordan Steger 2/0
Bart Moran 1/1
Jóhann Már Leifsson 1/2
Rúnar Freyr Rúnarsson 1/0
Sigurður Sigurðsson 0/2
Björn Már Jakobsson 0/1
Elvar Jónsteinsson 0/1
Jón Benedikt Gíslason 0/1

Mark/stoðsendingar Esju í kvöld:

Egill Þormóðsson 1/0
Andri Sverrisson 0/1
Daniel Kolar 0/1

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert