Glæsilegur sigur gegn Tyrkjum

Íslenska kvennalandsliðið fagnaði góðum sigri í dag.
Íslenska kvennalandsliðið fagnaði góðum sigri í dag. Ljósmynd/ÍHÍ

Kvennalandslið Íslands í íshokkí hafði betur gegn Tyrkjum, 6:2, í þriðja leik sínum í B-riðli 2.deildar heimsmeistaramótsins sem fram fer á Spáni.

Þetta var annar sigur íslenska liðsins í röð. Það tapaði fyrir Spánverjum í fyrsta leiknum, 2:1, þar sem Spánverjar skoruðu sigurmarkið undir lok leiksins en Ísland vann 4:3 sigur á Ný-Sjálendingum í annarri umferðinni þar sem úrslitin réðust í vítakeppni. Liðið er því með fimm stig eftir þrjá leiki.

Tyrkir skoruðu fyrsta markið en staðan eftir fyrsta leikhluta var jöfn, 1:1. Tyrkir skoruðu eina markið í öðrum leikhluta en í þeim þriðja tók íslenska liðið öll völd á vellinum og skoraði fimm mörk gegn engu.

Silvía Björgvinsdóttir skoraði tvö af mörkum Íslands í leiknum og þær Flosrún Jóhannesdóttir, Sunna Björgvinsdóttir, Teresa Snorradóttir og Kolbrún Garðarsdóttir skoruðu sitt markið hver.

Á morgun mæta Íslendingar liði Rúmena og síðan Taívan í lokaumferðinni á föstudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert