Hjálpar að eiginkonan sé í íshokkí

Ingvar Þór Jónsson á hóteli landsliðsins í Tilburg.
Ingvar Þór Jónsson á hóteli landsliðsins í Tilburg. mbl.is/Jóhann Ingi

„Aldrei þegar í mót er komið, en það er erfiðara og erfiðara að gíra sig upp í það,“ viðurkenndi Ingvar Þór Jóns­son, fyrirliði íslenska landsliðsins í íshokkí, er blaðamaður mbl.is spurði hann hvort hann væri að fá leið á því að mæta til leiks í verkefni erlendis með landsliðinu. 

Ingvar er nú á sínu tuttugasta heimsmeistaramóti með íslenska landsliðinu og á hann 93 landsleiki að baki. Hann hefur leikið alla keppnisleiki landsliðsins frá upphafi, eða síðan það var stofnað árið 1999. 

„Þegar maður er kominn með fjölskyldu og skyldur í vinnunni verður maður að forgangsraða. Þetta er auðvitað áhugamál, við erum ekki atvinnumenn. Það er stundum erfitt að gíra sig upp um veturinn, en þegar þetta nálgast, þá er þetta ekkert mál. 

Hann segir stuðning frá fjölskyldu mikilvægan og það hjálpi að eiginkona hans spilar einnig íshokkí. Ingvar er giftur Söruh Smiley, leikmanni Íslandsmeistara Ásynja, en hún er einnig í íslenska landsliðinu. 

„Hún skilur þetta og styður fullkomlega við bakið á mér. Það hjálpar mjög mikið og fjölskyldur okkar beggja styðja okkur.“

Þetta verður flott á næstu árum

Hann segir aðstæðurnar í Hollandi vera til fyrirmyndar, fyrir utan þá staðreynd að búningsklefinn er ansi langt frá skautasvellinu. 

„Þetta er frábært hótel og flott aðstaða og skautahallirnar eru flottar. Mér líst mjög vel á þetta allt saman þótt það sé dálítið sérstakt að þurfa að labba á milli húsa úr búningsklefa í keppnishöll. Vonandi er Siggi [Sigurður Sigurðsson, liðsstjóri íslenska liðsins] eitthvað að skoða það og við getum verið í klefa í keppnishöllinni fyrir leiki. Þetta er fulllangt labb á skautum. Annars er allt til alls hérna.“

Ingvar er fæddur árið 1981 og verður hann því 37 ára á þessu ári. Axel Snær Orong­an, yngsti leikmaður liðsins, er 20 árum yngri en fyrirliðinn. 

„Axel er rosalega flottur eins og allir ungu strákarnir. Mér líst vel á að liðið sé að yngjast, þannig á það að vera. Þetta verður flott á næstu árum.“

Ingvar er ánægður með Vla­dimir Kolek, sem stýrir Íslandi í fyrsta skipti á heimsmeistaramótinu í Hollandi. 

„Við verðum að spila eins og hann segir. Við verðum að hafa þetta einfalt og vera þéttir, en um leið ákafir og ákveðnir. Þessir ungu og snöggu leikmenn er eitthvað sem við getum nýtt og mér líst mjög vel á þjálfarateymið. Þeir eru báðir mjög reyndir.“

Raunhæft að berjast um verðlaun

Íslenska liðið er í riðli með Kína, Hollandi, Ástralíu, Serbíu og Belgíu. Ísland keppti við þrjár síðastnefndu þjóðirnar í Rúmeníu síðasta ári, en tapaði öllum leikjunum. Ingvar segir það ekki endilega hjálpa til við að gera menn klára. 

„Ég veit ekki hvort það hjálpi til. Mér finnst við alltaf fara í leiki með það hugafar að vinna þá. Þetta er sérstakt því þetta er bara sex liða mót. Við förum ekki fyrst í riðlakeppni eða milliriðill og svo úrslitakeppni. Þess vegna skiptir hver einasti leikur miklu máli. Okkur tekst yfirleitt að horfa á þetta sem fimm staka leiki, en ekki heildarmyndina. Við horfum ekki langt fram í tímann.“

Ingvar segir það raunhæft að berjast um verðlaun á mótinu. 

„Alveg hiklaust en það verður afar erfitt eins og alltaf. Það líta alltaf einhver óvænt úrslit dagsins ljós á svona mótum en við höfum unnið sterk lið. Í fyrra unnum við liðið sem vann mótið en okkur gekk síður gegn öðrum liðum. Það getur allt gerst og dagsformið spilar inn í þetta. Þetta verða allt saman hörkuleikir,“ sagði fyrirliðinn að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert