Við verðum að spila í 60 mínútur

Björn Már Jakobson, lengst til hægri, í leiknum í dag.
Björn Már Jakobson, lengst til hægri, í leiknum í dag. Ljósmynd/Stefán Örn

„Þetta er mikið svekkelsi. Við fórum í þennan leik til að vinna hann en við verðum að spila í 60 mínútur ef við ætlum að vinna þá," sagði Björn Már Jakobsson, leikmaður íslenska íshokkílandsliðsins eftir 6:3-tap á móti Belgíu í 2. deild heimsmeistarakeppninnar í Tilburg í dag. 

Íslenska liðið lék vel í upphafi leiks og var óheppið að vera 1:0 undir eftir 1. lotu. 2. lotan var hins vegar slæm og var staðan 3:0 eftir hana. Íslenska liðið minnkaði hins vegar muninn í 4:3 í síðustu lotunni. 

„Við vorum alls ekki síðari aðilinn til að byrja með en svo virkar ekkert hjá okkur í 2. lotu þar sem við vorum ekki að gera það sem við áttum að gera. Við fengum líka að heyra það eftir þá lotu sem virkaði ágætlega í byrjun 3. lotu og við komumst aftur inn í leikinn."

Þegar rúm mínúta var eftir var staðan 4:3 og freistaði Ísland til þess að jafna leikinn. Það gekk hins vegar ekki eftir og Belgar bættu við tveimur mörkum. 

„Þeir komst í sendinguna hjá varnarmanninum og komast í 5:3 og við tökum sénsinn og tökum markmanninn út og þá skora þeir aftur. Þá fjarar undan þessu. Við sáum það í 3.lotu að við getum alveg skautað með þessum gæjum ef við erum að gera það sem við eigum að gera."

Ísland lék mjög vel á köflum í leiknum en á öðrum köflum alls ekki nægilega vel. 

„Það var eitthvað einbeitingaleysi. Við eldri mennirnir sem erum búnir að vera lengi í þessu ættum að vera duglegri að tala við strákana og láta þá vita að við getum þetta alveg. Það eru tveir leikir eftir. Við hugsum um þetta í hálftíma og svo hugsum við strax í næsta leik. Haffi skoraði fyrsta markið sitt og það var gott. Robbie kom svo inn með tvö, það var flott. Við þurfum hins vegar meira til að vinna."

Hann segir íslenska liðið ekki hafa áhyggjur af fallbaráttu, þó fyrstu þrír leikirnir hafi tapast. 

„Við pælum ekkert í því. Við tökum leik eftir leik, einn í einu, og sjáum hvað gerist," sagði Björn Már Jakobsson að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert