Kemur íslensku íshokkíi á kortið

Leikmenn og forráðamenn SA að loknum lokaleiknum í Riga um …
Leikmenn og forráðamenn SA að loknum lokaleiknum í Riga um helgina. Ljósmynd/SA

Skautafélag Akureyrar gerði sér lítið fyrir og lagði Txuri Urdin frá Spáni í lokaleik sínum í C-riðli 2. umferðar Evrópubikarsins í íshokkíi í Lettlandi í gær, 3:2. Íslandsmeistararnir unnu nokkuð óvænt alla þrjá leiki sína í 1. umferð keppninnar og tryggðu sér sæti í 2. umferðinni fyrir vikið.

Í 2. umferðinni mætti Skautafélagið tveimur mjög sterkum atvinnumannaliðum frá Lettlandi og Úkraínu, en þau reyndust að lokum of sterk fyrir SA, sem og spænska liðið. Leikurinn í gær var því úrslitaleikur um þriðja sæti riðilsins, sem er afar góður árangur.

Jussi Sipponen, spilandi aðstoðarþjálfari SA, segir árangurinn í takt við það sem liðið bjóst við fyrir riðilinn.

„Þetta var svipað og við áttum von á. Fyrstu tveir leikirnir voru virkilega erfiðir en spænska liðið sem við spiluðum við í þriðja leiknum var jafnara okkur í styrkleika. Það var svipað og að spila leik heima, þótt Spánverjarnir spili öðruvísi íshokkí, og tempóið var aðeins meira. Það var jafn leikur tveggja góðra liða, lettneska liðið var sérstaklega sterkt, eins og við áttum von á,“ sagði Sipponen í samtali við Morgunblaðið, en SA tapaði 9:2 fyrir lettneska liðinu Kurbads Riga í fyrsta leik. SA tapaði fyrir Donbass frá Úkraínu í öðrum leik sínum, 6:3, en staðan var 3:3 þegar lítið var eftir. Sipponen var því ánægður með frammistöðu SA í leiknum, þrátt fyrir tapið.

„Við spiluðum annan leikinn virkilega vel. Við vissum að andstæðingurinn væri með betra lið svo við lögðum upp með að spila sterka vörn og reyna að skora úr skyndisóknum.“

Nánar er fjallað um árangur SA í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert