Pavel: Hlutirnir eru í okkar höndum

„Ég er klár, ég fékk fína hvíld í Bosníu og hef aldrei verið klárari,“ sagði landsliðsmaðurinn Pavel Ermolinskij í samtali við mbl.is að lokinni æfingu körfulandsliðsins í Koparkassanum í Lundúnum í gærkvöldi.

Liðið mætir Bretum í kvöld gríðarlega þýðingarmiklum leik sem gæti skorið úr um þátttöku Íslands í lokakeppni Evrópukeppninnar í fyrsta sinn. Pavel hefur átt við meiðsli að stríða en er klár í slaginn í kvöld. Hann segir stemninguna góða fyrir þessu stóra verkefni.

„Hún er góð. Menn eru meðvitaðir um mikilvægi leiksins en á sama tíma ekki að setja óþarfa pressu á sjálfa sig. Þetta er líklega stærsti landsleikur sem við höfum og eigum eftir að spila og við fögnum því bara,“ sagði Pavel, og segir kærkomið að fá leik þar sem eitthvað er undir.

„Við erum flestir hverjir búnir að spila marga tilgangslausa leiki en fáum núna leik þar sem það er í okkar höndum að gera frábæra hluti fyrir íslenskan körfubolta. Við ætlum að njóta þess og vinna að sjálfsögðu. Við fáum ekki betra tækifæri en þetta,“ sagði Pavel og var ánægður með komu Jóns Arnórs Stefánssonar inn í liðið á ný.

„Honum var rúllað inn á hjólastólnum, gamli refurinn. Nei auðvitað er gott að fá hann, enda okkar besti leikmaður. Guð blessi hann,“ sagði Pavel og hló, en nánar er rætt við hann í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert