Hörður Axel: Höfum unnið fyrir þessu

Landsliðsmennirnir þakka fyrir stuðninginn í kvöld.
Landsliðsmennirnir þakka fyrir stuðninginn í kvöld. Golli@mbl.is

Hörður Axel Vilhjálmsson skoraði 12 stig gegn Bosníu í Laugardalshöllinni í kvöld og segir íslenska landsliðið vera fullkomlega samkeppnishæft á stórmóti en Ísland tekur þátt í lokakeppni EM að ári í fyrsta skipti. 

„Ég hef aldrei einu sinni leyft mér að dreyma um að komast á stórmót með landsliðinu en við höfum unnið fyrir þessu sæti á EM. Við spiluðum auk þess tvo jafna leiki gegn Bosníu sem er einfaldlega á meðal bestu liða í Evrópu. Þar fyrir utan var Jakob Örn Sigurðarson ekki með í undankeppninni og leikmannahópur okkar gæti því þess vegna verið sterkari. Við verðum fullkomlega samkeppnishæfir á EM,“ sagði Hörður þegar mbl.is tók hann tali í Laugardalshöllinni í kvöld.

Hörður lék með landsliðinu í fyrra en missti af undankeppninni fyrir tveimur árum. Hann segir yngri leikmenn liðsins hafa styrkt hópinn verulega en á síðustu árum hafa Haukur Helgi Pálsson, Martin Hermannsson, Ragnar Nathanaelsson og Elvar Friðriksson komið sterkir inn í hópinn. 

„Þessir ungu leikmenn bera ekki virðingu fyrir neinum og þeir hafa aukið gæðin verulega á landsliðsæfingum. Hópurinn hefur því orðið mun sterkari með þá innanborðs.“

Hörður Axel Vilhjálmsson
Hörður Axel Vilhjálmsson mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert