Jón Arnór: Ekki hægt að búa sig undir svona augnablik

Jón Arnór Stefánsson í leiknum í kvöld.
Jón Arnór Stefánsson í leiknum í kvöld. Golli@mbl.is

Jón Arnór Stefánsson sagðist í samtali við mbl.is hafa öfundað liðsfélaga sína erlendis í gegnum tíðina þegar þeir fóru á stórmót með landsliðum sínum. Í september á næsta ári slæst Jón í hópinn því þá verður íslenska landsliðið í fyrsta skipti á meðal keppenda í lokakeppni EM.

„Ég leyfði mér aldrei að hugsa út í það hvort ég ætti eftir að komast á stórmót með landsliðinu. Ég hef oft horft á eftir liðsfélögum hjá félagsliðum fara á stórmót með sínum landsliðum og hef öfundað þá þó það sé neikvætt. Ég skal alveg viðurkenna það,“ sagði Jón í samtali við mbl.is í Laugardalshöllinni í kvöld þegar Íslands tapaði 78:70 fyrir Bosníu. Liðið náði engu að síður 2. sæti riðilsins og kemst þar af leiðandi á EM. 

„Maður getur ekki búið sig undir svona augnablik. Þegar það svo kemur þá veit maður ekki alveg hvernig maður á að vera. Þetta á kannski eftir að síast betur inn en þetta er mikið afrek. Það er mikið afrek að komast á stórmót.“

Íslenska landsliðið lék á móti gríðarlega sterkum þjóðum í undankeppninni fyrir tveimur árum og var þá í hörkuleikjum hér heima gegn þjóðum eins og Serbíu og Svartfjallandi sem eru í hópi þeirra bestu í Evrópu. „Ég myndi segja að þetta sé búið að vera þriggja ára ferli hjá okkur þar sem við höfum verið að bæta okkur smám saman. Núna vinnum við Bretland tvívegis sem er mjög sterkt og erum í tveimur jöfnum leikjum á móti Bosníu,“ sagði Jón Arnór Stefánsson í samtali við mbl.is að leiknum loknum gegn Bosníu en hann skoraði 21 stig í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert