„Við getum ekki beðið“

Hlynur Bæringsson á æfingu í gær.
Hlynur Bæringsson á æfingu í gær. mbl.is/Golli

Landsliðsfyrirliðinn, Hlynur Bæringsson, mun taka þátt í leiknum mikilvæga gegn Bosníu í undankeppni Evrópumótsins í Laugardalshöllinni í kvöld.

Hlynur varð sem kunnugt er fyrir ökklameiðslum í London á dögunum þegar Ísland vann sætan sigur á Bretum. Með sigri tryggir Ísland sér sigur í riðlinum og sæti í lokakeppninni að ári. Þrátt fyrir að leikurinn tapist eru engu að síður miklar líkur á því að 2. sæti riðilsins nægi til að komast á EM. Það skýrist í kvöld en þá verður einnig leikið í öðrum riðlum.

„Ökklinn er ekki eins góður og ég hefði viljað en ástandið er þó að mjakast í rétta átt. Ég verð alla vega með í leiknum. Á landsliðsæfingu í gær gat ég skokkað og í dag er ég aðeins betri. Ég verð ekki 100% heill heilsu en mun beita mér eins og ég get. Um tognun er að ræða og ég bý mig undir þátttöku í leiknum en ég vil ekki spila ef ég er mínus fyrir liðið. Þjálfararnir verða að meta það og taka mig þá bara út af. Við þurfum að tefla fram því liði sem er líklegast til að vinna leikinn. Ég vonast til þess að geta hjálpað,“ sagði Hlynur þegar Morgunblaðið tók hann tali á landsliðsæfingu í gær.

Lið Bosníu er afar sterkt og íslenska liðið tapaði ytra með tíu stiga mun. Spurður um styrkleika Bosníu, í samanburði við sterkar þjóðir sem komu hingað til lands fyrir tveimur árum eins og Serbíu og Svartfjalland, sagði Hlynur bosníska liðið standa þessum liðum örlítið að baki.

„Bosnía er á pari við þessi lið að því leyti að liðið hefur náð svipuðum árangri á EM og hefur örugglega unnið þessar þjóðir. Serbía er hærra skrifað og ég myndi segja að Bosnía sé skör neðar eins og liðið er mannað á morgun því þar vantar NBA-leikmanninn Mirza Teletovic,“ sagði miðherjinn Hlynur Bæringsson.

Leikurinn hefst klukkan 19.30 og verður leikurinn í beinni textalýsingu á mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert