LeBron hafði betur gegn Durant

LeBron James var öflugur í leiknum í kvöld.
LeBron James var öflugur í leiknum í kvöld. AFP

Tveir af bestu leikmönnum NBA-deildarinnar í körfuknattleik áttust við í kvöld. LeBron James hafði betur gegn Kevin Durant og Cleveland Cavaliers lagði Oklahoma City Thunder að velli, 108:98.

LeBron skoraði 34 stig fyrir Cleveland, sem vann sinn sjötta leik í röð, og hann gerði m.a. átta stig á stuttum tíma, þar af tvær þriggja stiga körfur, þegar lið hans komst í 91:80 seint í leiknum. LeBron missti fyrir skömmu af átta leikjum vegna meiðsla en eftir endurkomu hans hefur Cleveland unnið sex leiki af stjö. Kevin Love kom líka til hjálpar en hann skoraði 19 stig og tók 13 fráköst.

Durant skoraði 32 stig fyrir Oklahoma og Russell Westbrook gerði 22. Lið þeirra vantar enn að brúa sjö leikja bil til að ná upp í áttunda sæti Vesturdeildar en liðið tapaði mörgum leikjum snemma á tímabilinu þegar aðalstjörnurnar voru meiddar.

Miami Heat vann góðan útisigur á Chicago Bulls í kvöld, 96:84. Dwyane Wade skoraði 26 stig fyrir Miami og Chris Bosh 20 en Derrick Rose skoraði 19 stig fyrir Chicago og Pau Gasol tók 17 fráköst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert