Hetjan fór í hjartaaðgerð

Kareem Abdul-Jabbar skorar með sínu fræga sveifluskoti.
Kareem Abdul-Jabbar skorar með sínu fræga sveifluskoti.

Einn frægasti körfuknattleiksmaður allra tíma, Bandaríkjamaðurinn Kareem Abdul-Jabbar, er á batavegi eftir að hafa gengist undir stóra hjartaaðgerð á Ronald Reagan læknamiðstöðinni í Los Angeles í gær.

Abdul-Jabbar, sem varð 68 ára á fimmtudaginn, varð sex sinnum NBA-meistari, fimm sinnum með Los Angeles Lakers og einu sinni með Milwauee Bucks, í kjölfarið á glæsilegum háskólaferli. Hann er stigahæsti leikmaður NBA-deildarinnar frá upphafi.

Hann spilaði í deildinni frá 1969 til 1989 og lék sem miðherji en hann er 2,18 metrar á hæð. Þegar Pétur Guðmundsson, eini Íslendingurinn sem hefur leikið í NBA, var fenginn til LA Lakers árið 1986 var það til að vera varamaður fyrir Abdul-Jabbar og hvíla hann í leikjum liðsins.

Þetta er í annað sinn sem Abdul-Jabbar glímir við alvarleg veikindi en hann greindist með hvítblæði árið 2009 og vann bug á því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert