KR einum sigri frá titlinum

Helgi Rafn Viggósson sækir að körfu KR-inga í kvöld en …
Helgi Rafn Viggósson sækir að körfu KR-inga í kvöld en til varnar er Helgi Már Magnússon. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Íslandsmeistarar karla í körfubolta, KR-ingar, þurfa einn sigur til viðbótar til að verja titil sinn. KR og Tindastóll áttust við í þriðja úrslitaleiknum í Dominos-deild karla í körfuknattleik en flautað var til leiks í DHL-höllinni í Frostaskjóli klukkan 19.15. KR vann sannfærandi sigur 104:91 og er 2:1 yfir í úrslitarimmunni en vinna þarf þrjá leiki til að verða meistari. 

Sigur KR var býsna öruggur en liðið náði strax góðu forskoti í fyrri hálfleik líkt og gerðist í fyrsta leik liðanna. KR-ingar hittu afar vel og Skagfirðingar réðu ekkert við þá í vörninni. Brynjar Þór Björnsson fór á kostum og skoraði 26 stig í fyrstu þremur leikhlutunum og lét það nægja. Hann setti niður 6 þriggja stiga skot. Hjá Tindastóli voru Darrel Lewis og Helgi Rafn Viggósson stigahæstir með 19 stig hvor. 

Samkvæmt tölfræðiskýrslu leiksins þá er hittni KR-inga mögnuð að þessu sinni. 14 af 25 þriggja stiga skotum fóru niður og 22 af 29 innan teigs. KR-ingar kunna vel sig á heimavelli sínum í Frostaskjólinu, svo ekki sé fastar að orði kveðið, en þar er liðið taplaust á keppnistímabilinu sem segir nokkuð um getu og stöðugleika liðsins. 

Án Myrons Dempsey er róðurinn þungur fyrir Tindastól. Sem er sorglegt því liðið lék mjög vel í allan vetur og sýndi mjög góða leiki gegn Haukum í undanúrslitum. Að vera án bandarísks leikmann í úrslitarimmu er hins vegar stór biti að kyngja, jafnvel þó svo Stólarnir hafi unnið annan leikinn fyrir norðan. 

Fylgst var með gangi mála í leiknum í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

40. mín: Leiknum er lokið. KR sigraði 104:91 og staðan er því 2:1 fyrir KR í rimmunni. KR-ingar geta tryggt sér titilinn á Sauðárkróki á miðvikudaginn. Ef ekki þá verður hreinn úrslitaleikur í Frostaskjólinu. 

37. mín: Staðan er 96:75 fyrir KR. Magni Hafsteins að koma inn á hjá KR en hann hefur aðeins spilað í 3 mínútur í dag. 

35. mín: Staðan er 92:72 fyrir KR. Margir lykilmenn liðanna eru utan vallar í fjórða leikhluta en fátt sem bendir til þess að lokamínúturnar verði spennandi. Nú eru sumir sparaðir fyrir næsta leik sem er á miðvikudaginn á Króknum. 

30. mín: Staðan er 85:69 fyrir KR. Einungis síðasti leikhlutinn eftir. KR-ingar kunna mun betur við körfurnar í Frostaskjólinu en á Króknum en mikill munur er á hittni liðanna eftir því á hvorum staðnum er spilað. KR-ingar hafa í dag hitt úr 13 af 21 skoti fyrir utan 3 stiga línuna. 

26. mín: Staðan er 72:45 fyrir KR. Hér stefnir í stórsigur eins og ég óttaðist. Það er full mikið af því góða að vera án Bandaríkjamanns í úrslitarimmu. Þetta er ekki nægilega skemmtilegt okkur þessa hlutlausu. 

24. mín: Staðan er 65:43 fyrir KR. Brynjar er sjóðandi heitur og hefur nú hitt úr 6 af 7 þristum. Ég er hræddur um að aðstoðarslökkviliðsstjórinn á Króknum, Svavar Atli Birgisson, og samherjar hans þurfi að finna leiðir til að slökkva í Brynjari fyrir fjórða leikinn. Svavari finnst þessi brandari sjálfsagt vera orðinn dasaður. 

23. mín: Staðan er 62:43 fyrir KR. Nokkuð ljóst í hvað stefnir. Stólanir í vandræðum í upphafi síðari hálfleiks og KR-ingar láta kné fylgja kviði. 

Brynjar Þór Björnsson og Svavar Atli Birgisson.
Brynjar Þór Björnsson og Svavar Atli Birgisson. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

20. mín: Staðan er 53:41 fyrir KR. Fyrri hálfleik er lokið. KR-ingarnir töluvert sterkari í fyrri hálfleik eins og staðan sýnir. Brynjar var frábær og skoraði 20 stig en hann hitti úr 4 þriggja stiga skotum af 5. Craion er auk þess með 15 stig. Stólunum tókst ekki að stöðva KR-ingana í þessum hálfleik en Skagfirðingar spiluðu betri vörn á Króknum og geta bætt stig í seinni. Villurnar hafa þó safnast upp hjá þeim en Lewis og Pétur eru báðir með 3 villur og Helgi Rafn og Flake með 2 villur. Hjá KR er einungis Pavel með 2 villur. Ingvi Rafn hefur spilað best Stólanna og er með 7 stig en Darrel Lewis er stigahæstur með 11 stig. 

16. mín: Staðan er 40:31 fyrir KR. Stólarnir hafa aðeins nagað niður forskotið eftir fremur undarlegar síðustu mínútur þar sem KR-ingar náðu sér bæði í óíþróttamannslega villu og tæknivillu. Furðulegt hvað KR-ingarnir eru pirraðir yfir dómgæslunni miðað við hversu vel þeir eru að spila. Ákveðið einbeitingarleysi hjá þeim að mér finnst. 

14. mín: Staðan er 40:25 fyrir KR. Stólarnir þurfa að hafa mun meira fyrir sínum körfum. Þeir þurfa oft á tíðum að reyna erfið skot. KR-ingum tekst iðulega að finna lausan mann í sókninni. 

12. mín: Staðan er 33:21 fyrir KR. Þróun leiksins minnir á fyrsta leikinn sem var heldur ójafn. Brynjar búinn að bæta við þriggja stiga körfu. Sóknin gengur sæmilega hjá Stólunum en þeir ráða ekki við KR-inga í vörninni. Alla vega ekki fram til þessa í leiknum. 

10. mín: Staðan er 28:19 fyrir KR. Fyrsta leikhluta er lokið. Ég óttast Skagfirðinga vegna að þeir muni ekki eiga möguleika í kvöld. KR-ingarnir eru heitir og þeir hitta mun betur í Frostaskjólinu en á Króknum. Helgi Magg með þrjá þrista og Brynjar tvo. Auk þess er Craion drjúgur undir körfunni. Það er ekkert grín að verjast KR-liðinu þegar menn eins og Helgi og Brynjar eru heitir í þristunum. 

5. mín: Staðan er 14:12 fyrir KR. Stórskemmtilegar upphafsmínútur. Leikmenn liðanna eru mjög áræðnir og hittnin er fín miðað við mikilvægi leiksins. 

3. mín: Staðan er 10:4 fyrir KR. Annað þriggja stiga skot Helga fer einnig beint ofan í. Frábær tíðindi fyrir KR. 

1. mín: Staðan er 5:2 fyrir KR. Leikurinn er hafinn. Craion og Flake, sem báðir léku vel í síðasta leik, skoruðu fyrstu körfurnar. Gerðu það hvor með sínu nefi, Craion komst upp að körfunni en Flake skaut af nokkru færi. Helgi Magg kom þá með þrist. 

Lið KR: Brynjar Þór Björnsson, Ingvaldur Magni Hafsteinsson, Darri Freyr Atlason, Michael Craion, Björn Kristjánsson, Þórir G. Þorbjarnarson, Helgi Már Magnússon, Vilhjálmur Kári Jensson, Illugi Steingrímsson, Darri Hilmarsson, Finnur Atli Magnússon, Pavel Ermolinskij. 

Lið Tindastóls: Ingvi Rafn Ingibergsson, Sigurður Páll Stefánsson, Pálmi Þórsson, Pétur Rúnar Birgisson, Helgi Freyr Margeirsson, Finnbogi Bjarnason, Svavar Atli Birgisson, Hannes Ingi Másson, Viðar Ágústsson, Darrel Keith Lewis, Helgi Rafn Viggósson, Darrell Flake. 

0. mín: DHL-höllin er orðin kjaftfull og var orðin það hálftíma fyrir leik. Veit Biggi Fins af þessu? Eins og í úrslitaleikjum eru pallar fyrir aftan körfurnar og þannig bæta KR-ingar við nokkur hundruð manns á að giska. 

0. mín: Fremsti dómari landsins, Sigmundur Már Herbertsson, er ekki í dómaratríóinu í kvöld eins og í fyrstu tveimur leikjunum. Leifur Garðarsson, Jón Guðmundsson og Davíð Kristján Hreiðarsson dæma leikinn. Eftirlitsmaður er Bergur Þór Steingrímsson.  

0. mín: Bandaríkjamaðurinn hjá Tindastóli, Myron Dempsey, hefur ekki jafnað sig af höfuðhögginu sem hann fékk á æfingu rétt áður en rimman hófst og missir af þriðja leiknum í röð í kvöld. 

0. mín Staðan í einvígi liðanna er 1:1 en vinna þarf þrjá leiki til að hampa Íslandsmeistaratitlinum. KR vann fyrsta leikinn í Reykjavík 94:74 en Tindastóll jafnaði með sigri 80:72 á Sauðárkróki. 

Helgi Rafn Viggósson og Björn Kristjánsson
Helgi Rafn Viggósson og Björn Kristjánsson mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert