Dirk Nowitzki hefur ekki ákveðið sig vegna EM

Dirk Nowitzki.
Dirk Nowitzki. AFP

Þjóðverjar hafa valið landsliðshóp sinn í körfubolta vegna tveggja vináttuleikja í Berlín 25. og 26. júní. Skærasta stjarna þeirra, Dirk Nowitzki, er ekki í hópnum. Ekki er þó víst að það sé vísbending um að hann verði ekki með á EM í Berlín í september. Þar mætast Þjóðverjar og Íslendingar í opnunarleiknum.

Nowitzki tjáði sig nýlega á heimasíðu Dallas Mavericks um það hvort hann yrði með á EM í haust og gaf ekki skýrt svar. Nowitzki sagðist ekki hafa tekið ákvörðun en lét að því liggja að hann þyrfti að ákveða sig í júní í síðasta lagi.

„Ég sé til hvernig mér líður og hvaða skoðun fjölskylda mín hefur á málinu. Ég tek ekki lengur ákvarðanir einn míns liðs. Ég þarf að hugsa um fleiri en sjálfan mig. Riðillinn fer fram í Þýskalandi og það skiptir augljóslega miklu máli fyrir íþróttina í heimalandi mínu. Sú staðreynd hefur eðlilega mikil áhrif á ákvarðanatökuna.

Auk þess myndi ég gjarnan vilja taka þátt í Ólympíuleikunum einu sinni til viðbótar þegar þeir verða haldnir í Ríó á næsta ári. En að þessu sögðu mun ég bera þetta undir marga aðila, eins og til dæmis Mark Cuban (eiganda Mavericks) og ef til vill þjálfarann Rick Carlisle, og heyra hvaða skoðanir þeir hafa á þessu. Þetta hefur jú mikil áhrif á undirbúningstímabilið fyrir NBA,“ var haft eftir Nowitzki, sem er langþekktasti og besti körfuboltamaður sem Þjóðverjar hafa eignast enda sjöundi stigahæsti leikmaður í sögu NBA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert