FIBA setur bann á Rússa

Vitaly Mutko, íþróttamálaráðherra Rússlands.
Vitaly Mutko, íþróttamálaráðherra Rússlands. AP

Alþjóða körfuboltasambandið ákvað í dag að banna öllum landsliðum á vegum rússneska körfuboltasambandsins að taka þátt í mótum á vegum sambandsins, en ástæðan ku vera vegna óstöðugleika innan sambandsins.

Mikill óstöðugleiki hefur verið innan rússneska sambandsins, en það breyttist í enn meira fíaskó í júni er sambandið var neytt til þess að halda forsetakosningar.

Alþjóða körfuboltasambandið ákvað því í dag að banna Rússum að taka þátt í mótum á vegum sambandsins, en þetta setur Ólympíuleikanna í hættu hjá Rússum.

Yulia Anikeeva var kosin forseti sambandsins árið 2013, en síðar þótti atkvæðagreiðslan afar umdeild og var því sambandinu skipað að halda aðrar kosningar.

Andrei Kirilenko, fyrrum leikmaður í NBA-deildinni, hefur ákveðið að bjóða sig fram í næstu kosningum, en þær fara fram 25. ágúst næstkomandi.

„Ég mun fljúga sjálfur til þess að funda með alþjóða körfuboltasambandinu og leysa þetta vandamál. Það er ekki hægt að koma svona fram við Rússland,“ sagði Vitaly Mutko, íþróttamálaráðherra.

„Við förum með þetta fyrir íþróttadómstólinn í Lausanne, því ég get ekki séð neitt sem kemur í veg fyrir þátttöku okkar,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert