Það þarf að fíflast þarna líka

Ragnar Ágúst Nathanaelsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, rífur meðalhæð íslenska landsliðsins upp nánast upp á sitt einsdæmi og hann er klár í slaginn fyrir Evrópumeistaramótið í Berlín sem fram fer í byrjun næsta mánaðar.

„Það er búið að vera þvílíkur spenningur í allt sumar að vonast til að komast í liðið. Nú þegar það er staðfest get ég ekki beðið eftir að mæta þessum gaurum,“ sagði Ragnar þegar mbl.is tók hann tali í vikunni. Riðill Íslands er ógnarsterkur og margir þekktir leikmenn verða mótherjar okkar manna.

„Að spila á móti þessum gæjum þarna sem eru nánast allir í byrjunarliði í NBA-deildinni, maður veit ekki alveg við hverju á að búast. Svo það þarf bara að mæta með hroka og sjá hvað gerist,“ sagði Ragnar, sem hefur ekki síður stórt hlutverk inni í klefanum enda er alltaf stutt í grínið.

„Maður verður að passa það að hafa móralinn góðan og ekki gleyma sér bara í körfuboltanum, það þarf að fíflast líka og vera Íslendingur í útlöndum. Þetta er mikil lífsreynsla og það þarf að njóta þess að vera þarna,“ sagði Ragnar í samtali við mbl.is, en hann fagnaði 24 ára afmæli sínu í gær.

Nánar er rætt við Ragnar í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert