Haiden var algjörlega mögnuð

Ingi Þór Steinþórsson.
Ingi Þór Steinþórsson. mbl.is/Ómar

Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells var að vonum kampakátur eftir sigurinn á Haukum í kvöld í toppslagnum mikilvæga í Stykkishólmi í Dominos-deild kvenna í körfuknattleik.

Haiden Palmer fór fyrir liði Snæfells en hún skoraði heil 43 stig í leiknum, tók 14 fráköst og átti 5 stoðsendingar.

„Ég var rosalega ánægður með áræðnina í liðinu í dag og Haiden var algjörlega mögnuð í leiknum, þó ég persónulega hefði viljað sjá þetta á fleiri höndum en það gekk ekki þannig upp í dag. Á meðan við vinnum þá er maður sáttur við þetta svona en við viljum deila þessu á fleiri hendur hjá okkur,“ sagði Ingi.

„Áræðnin og framkvæmdin varnarlega séð var mestmegnis til fyrirmyndar og þó ég hafi misst röddina í nokkrum atriðum hérna hjá okkur þá framkvæmum við þessi varnaratriði vel og erum að frákasta betur í þessum leik en í öðrum leikjum á tímabilinu. Það er það sem við erum mjög ánægðar með og þetta er það sem ég vill fá að sjá frá mínum liðum,“ sagði Ingi sem er kominn með Snæfell í efsta sæti deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert