Hundsvekktur með mína menn

Friðrik Ingi Rúnarsson þjálfari Njarðvíkur.
Friðrik Ingi Rúnarsson þjálfari Njarðvíkur. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

„Ég er auðvitað bara hundsvekktur með mína menn og þetta tap", sagði Friðrik Ingi Rúnarsson þjálfari Njarðvíkinga við mbl.is eftir ósigurinn gegn Tindastóli í kvöld, 88:79, á Sauðárkróki í Dominos-deild karla í körfuknattleik. 

Friðrik sagðist svo sem hafa vitað það fyrirfram að ekki yrði auðsótt að sækja stig á krókinn. „En við vorum vorum bara að gera þeim þetta allt of auðvelt, sýndum ekki næga einbeitingu og jafnvel þegar við vorum tvisvar með tíu stiga forystu, þá buðum við þá bara velkomna aftur inn í leikinn og bökkuðum.

Já, ég verð bara að segja það að ég er alveg hundfúll, við vorum með alltof marga tapaða bolta og sóknarfráköst sem á ekki að eiga sér stað". 

Friðrik sagði fjölmargt sem þyrfti að laga því svona sveiflur í leik mættu ekki gerast ef vel ætti að vera.

Flottir fram í fjórða leikhluta

„Við vorum flottir fram í fjórða leikhluta, en þá misstum við hausinn. Þetta var eiginlega nákvæmlega það sama og gerðist í leiknum á móti KR, þá fórum við að taka rangar ákvarðanir og mistökin voru fljót að segja til sín. Annað er eiginlega ekki hægt að segja um þetta," sagði Logi Gunnarsson fyrirliði Njarðvíkinga og landsliðsmaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert