„Ég er alltaf bjartsýn“

Frá viðureign Grindavíkur og Hauka í vetur.
Frá viðureign Grindavíkur og Hauka í vetur. mbl.is/Árni Sæberg

Grindavík stefnir á að hampa bikarnum á loft í Laugardalshöllinni annað árið í röð í dag en bikarmeistararnir mæta Íslandsmeisturum Snæfells í úrslitaleik í Laugardalshöllinni.
 
,,Það er engin spurning að Snæfell er besta lið landsins svo það verður á brattann að sækja fyrir okkur. Við höfum tapað báðum leikjunum á móti Snæfelli í deildinni í vetur en nú er tímabært að gera breytingu á því,“ sagði Íris Sverrisdóttir fyrirliði Grindvíkinga við mbl.is.
 
,,Liðið okkar í dag frá því við unnum bikarmeistaratitilinn er mikið breytt en stefnan er að sjálfsögðu að halda bikarnum í Grindavík. Við gerum okkur hins vegar grein fyrir því að lið Snæfells er gríðarlega gott er með besta leikmanninn í deildinni í sínum röðum sem er Haiden Denise Palmer. En það eru fleiri góðir leikmenn í liðinu en hún. Það er því ekki nóg að stoppa Palmer.

Við þurfum allar að vera á tánum og spila sem ein liðsheild. Við byrjuðum tímabilið ekki vel en við höfum náð að slípa okkur vel saman og þegar við náum okkur allar á strik og spilum sem eitt lið þá erum við með hörkugott lið. Við verðum að vera tilbúnar að bíta vel frá okkur og berjast frá fyrstu til síðustu mínútu. Ég er alltaf bjartsýn og við ætlum okkur að vinna þennan leik,“ sagði Íris.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert