„Höfum engu að tapa“

Emil Karel Einarsson.
Emil Karel Einarsson. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
,,Það er vissulega komið fiðrildi í magann á manni,“ sagði framherjinn Emil Karel Einarsson framherji Þórs Þorlákshafnar við mbl.is en Emil verður í eldlínunni gegn KR í bikarúrslitaleiknum í Laugardalshöllinni í dag.
 
,,Það er búinn að vera spenningur hjá manni síðasta mánuðinn eða frá því við unnum Keflavík í undanúrslitunum. En nú er að koma að þessu og það er alveg ljóst að okkar bíður gríðarlega erfiður leikur. KR er besta lið landsins. Liðið er búið að vera á toppnum lengi og það býr mikil reynsla í þeirra liði ólíkt okkar liði þar sem við erum allir að undanskildum Ragnari Bragasyni, að fara í okkar fyrsta bikarúrslitaleik,“ segir Emil Karel.
 
,,Við höfum þannig lagað engu að tapa í þessum leik. Það er fáir nema við sjálfir sem trúa því að við getum unnið KR í úrslitaleik og það er alveg ljóst að við þurfum að spila 40 hörkugóðar mínútur og hitta á algjöran toppleik til að eiga möguleika á sigri.
Við höfum spilað tvo leiki við KR í deildinni þar sem við höfum spilað 35 góðar mínútur í báðum leikjunum. Það dugar bara ekki til á móti þessu sterka liði. Það er búin að vera mikil stemning í bæjarfélaginu fyrir leiknum og margir vinnustaðir verða lokaðir meðan á leiknum stendur,“ sagði Emil Karel.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert