Erfitt að eiga við KR í þessum ham

Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, á hliðarlínunni í kvöld.
Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is / Árni Sæberg

„Ég er um leið afar stoltur og mjög svekktur. Við börðumst gríðarlega vel, en þeir hitta afskaplega vel og það er ofboðslega erfitt að ráða við KR í þessum ham,“ sagði Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka í samtali við mbl.is eftir 84:70 tap liðsins gegn KR í fjórða leik liðanna í úrslitaeinvígi Dominos-deildar karla í körfuknattleik. 

„Þegar þeir hitta svona vel þá er erfitt að eiga við Michael Craion inn í teignum. Það sem varð okkur að falli var að leikmenn KR liðsins voru funheitur og spiluðu afar vel. Við lögðum okkur alla fram en það bara dugði ekki til,“ sagði Ívar um frammistöðu Hauka. 

„Ég er mjög stoltur af árangri liðsins í vetur og nú er bara að byggja á þessum árangri og fara alla leið og verða Íslandsmeistarar næsta vetur. Nú förum við í að safna liði og sjá hvar við getum bætt okkur til þess að fara einu skrefi á næstu leiktíð,“ sagði Ívar um framhaldið hjá Haukum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert