Warriors krækti í annan vinning

Klay Thompson fyrir miðri mynd ásamt Damian Lillard liðsmanni Portland.
Klay Thompson fyrir miðri mynd ásamt Damian Lillard liðsmanni Portland. AFP

Golden State Warriors jók forskot sitt í undanúrslitarimmu sinni við Portland Trail Blazers í Vesturdeild NBA-deildarinnar í körfuknattleik í gærkvöldið með öruggum sigri á heimavelli, 110:99. Warriors hefur þar með tvo vinninga gegn engum Portlands-liðsins. 

Á svipuðum tíma vann Miami Heat liðsmenn Toronto Rapptors í fyrstu viðureign liðanna í undanúrslitum Austurdeildarinnar, 102:96, í Air Canada Centre í Toronto. Framlengingu þurfti til að knýja fram úrslit í leiknum. 

Kyle Lowry tryggði heimamönnum framlengingu þegar hann skoraði úr þriggja stiga skoti í þann mund sem leiktíminn var úti. Leikmenn Miami byrjuðu framlenginguna af krafti og skoruðu átta fyrstu stigin og lögðu grunn að sigri í leiknum. 

Goran Dragic skoraði 26 stig fyrir Miami og var stigahæstur. Dwayne Wade var næstu með 24 stig, sex fráköst og fjórar stoðsendingar. 

Jonas Valanciunas var stigahæstur hjá Raptors með 24 stig auk þess að taka 14 fráköst. DeMar DeRozan var næstur með 22 stig. 

Klay Thompson var stigahæstur hjá Golden State í sigri liðsins á Portland. Hann skoraði 27 stig. Stephen Curry lék ekki með Golden State fremur en í síðustu viðureign liðanna vegna meðsla.  

Draymond Green átti stórleik fyrir Warriors. Hann skoraði 17 stig, tók 14 fráköst og átti sjö stoðsendingar. 

Damian Lillard var atkvæðamestur leikmanna Portland með 25 stig. C.J. McCollum var næstur með 22 stig. Næsta viðureign Golden State og Portland verður á heimavelli Portland á sunnudaginn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert