Toronto jafnaði metin

Kyle Lowry hjá Toronto sækir að körfu Cleveland í leiknum …
Kyle Lowry hjá Toronto sækir að körfu Cleveland í leiknum í nótt. AFP

Toronto Raptors galopnaði úrslitaeinvígi Austurdeildar NBA í körfubolta í nótt með því að sigra Cleveland Cavaliers öðru sinni á heimavelli sínum í Kanada, 105:99, og jafna með því metin í 2:2.

Flestir spáðu Cleveland auðveldum sigri í þessu einvígi eftir að liðið komst í 2:0 en staðan er nú gjörbreytt fyrir fimmta leikinn sem fer fram í Cleveland annað kvöld.

Kyle Lowry skoraði 35 stig og DeMar DeRozan 32 fyrir Toronto og stórleikur þeirra tveggja var meira en LeBron James og félagar réðu við. Bismack Biyombo tók enn fremur 14 fráköst.

James skoraði 29 stig fyrir Cleveland og Kyrie Irving 26 en þeir lentu um tíma átján stigum undir í leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert