Hverjir geta spilað í A-deildinni?

Kári Jónsson getur leikið í A-deildinni að ári en Pétur …
Kári Jónsson getur leikið í A-deildinni að ári en Pétur Rúnar Birgisson verður genginn upp úr U-20 ára liðinu. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Íslenska körfuboltalandsliðið skipað leikmönnum undir 20 ára leikur á meðal bestu þjóða Evrópu á næsta ári í A-deild. Hverjir verða þá gengnir upp úr liðinu og hverjir úr því liði sem nú er að brillera mega spila að ári?

Ísland leikur til úrslita í B-deildinni og hefur þar með unnið sér rétt til að spila í A-deildinni að ári á meðal þeirra allra bestu. B-deildin var reyndar sterk í ár og þar eru miklar körfuboltaþjóðir eins og Grikkland, Króatía, Rússland og Svartfjallaland svo einhverjar séu nefndar.

Einn af lykilmönnum liðsins, Jón Axel Guðmundsson, verður orðinn of gamall þegar A-deildin fer fram að ári. Hann skilur eftir sig skarð enda fór hann á kostum í sigurleiknum gegn Rússum sem dæmis og er fjölhæfur leikmaður. Jón er nú á leið í sama háskólalið í Bandaríkjunum og Stephen Curry spilaði með. 

Þá mun Hjálmar Stefánsson ekki geta verið með af sömu sökum en Hjálmar vakti mikla athygli með Haukum í úrslitakeppninni í vor og þá sérstaklega fyrir skeleggan varnarleik. Sá þriðji sem vert er að nefna er Pétur Rúnar Birgisson sem leikið hefur sem leikstjórnandi hjá Tindastóli síðustu tvö tímabil. 

Á hinn bóginn er athyglisvert að þrír lykilmenn í liðinu eru ekki á elsta ári í landsliðinu. Gera má ráð fyrir því að þeir verði enn betri að ári liðnu enda taka leikmenn miklum framförum á þessum aldri þegar vel gengur. Kári Jónsson sem er á leið í skóla í Philadelphia sýndi í vetur hvers hann er megnugur og var einn besti leikmaðurinn í Dominos-deildinni. Þá þykir Kristinn Pálsson vera gríðarlegt efni. Hann lék vel á sínum fyrsta vetri í Bandaríkjunum í vetur og var þar áður í akademíu á Ítalíu. Sjálfur miðherjinn getur leikið áfram með liðinu en þar er um hinn hávaxna Tryggva Hlinason að ræða sem íþróttaáhugamenn geta séð spila með Þór Akureyri í Dominos-deildinni næsta vetur. 

Auk þess munu leikmenn ganga upp í liðið og þar er væntanlega efstur á blaði Þórir Guðmundur Þorbjarnarson sem vakti töluverða athygli með KR sem vann tvöfalt í vetur. 

Fyrir áhugafólk um íþróttaættfræði þá er Jón Axel sonur Guðmundar Bragasonar. Kári er sonur Jóns Arnars Ingvarssonar og Kristinn er sonur Páls Kristinssonar. Allir voru feðurnir A-landsliðsmenn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert