Nowitzki framlengir hjá Dallas

Dirk Nowitzki
Dirk Nowitzki AFP

Þjóðverjinn Dirk Nowitzki hefur samið aftur við Dallas Mavericks í NBA-körfuboltadeildinni og mun því leika áfram með liðinu a.m.k. eitt tímabil í viðbót.

Novitzki hefur leikið með Dallas í 18 ár og er sá leikmaður í deildinni sem lengst hefur leikið með sama liðinu. Tim Duncan lagði nýverið skóna á hilluna eftir 19 ára feril með San Antonio Spurs.

Vangaveltur voru uppi um hvort þessi 38 ára framherji myndi semja við lið sem væri sigurstranglegt í NBA-deildinni og reyna þar með að ljúka glæstum ferli með meistaratitli en Nowitzki hefur ákveðið að halda tryggð við Dallas.

Dirk Nowitzki er sjötti stigahæsti leikmaður NBA frá upphafi með 29.491 stig. Hann var kosinn besti leikmaður deildarinnar 2006-2007 og leiddi Dallas til sigurs í NBA árið 2011. Þjóðverjinn skoraði 18,3 stig og tók 6,5 fráköst að meðaltali í fyrra og er langt frá því að vera dauður úr öllum æðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert