Leikmaður frá Senegal í Skagafjörðinn

José María Costa Gómez þjálfari Tindastóls
José María Costa Gómez þjálfari Tindastóls mbl.is/Styrmir Kári

Staðarblaðið Feykir greinir frá því í dag að karlalið Tindastóls í körfuknattleik hafi bætt við sig tveimur erlendum leikmönnum og eru þeir sagðir vera firnasterkir eins og það er orðað.

Annars vegar er um að ræða 26 ára gamlan Bandaríkjamann, Antonio Kurtis Hester, að nafni en hann spilar stöðu framherja.

Hins vegar er um að ræða leikmann frá Senegal sem er fæddur 1992 og hefur leikið á Spáni undanfarin ár eftir því sem haft er eftir Stefáni Jónssyni, formanni körfuboltadeildar Tindastóls. Seck Pape Abdoulaye heitir hann og er 205 cm á hæð og kemur því væntanlega til með að spila undir körfunni.

Miklar breytingar verða á liði Tindastóls á milli tímabila í Dominos-deildinni. Farnir eru öflugir leikmenn. Darrel Lewis og Ingvi Rafn Ingibergsson fóru til Þórs á Akureyri og Darrell Flake til Skallagríms. Á hinn bóginn hefur Tindastóll fengið Chris Baird frá FSu, Björgvin Hafþór Ríkharðsson frá ÍR og Austin Magnús Bracey frá Snæfelli. 

Frétt Feykis

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert