Grindvíkingar brotnuðu snemma

Brynjar Þór Björnsson sækir að körfu Grindvíkinga í kvöld.
Brynjar Þór Björnsson sækir að körfu Grindvíkinga í kvöld. mbl.is/Golli

KR og Grindavík mættast í 3. umferð Dominos-deildar karla í körfuknattleik í Frostaskjóli í kvöld og KR vann öruggan sigur 87:62.  Íslands- og bikarmeistararnir hafa þá unnið fyrstu þrjá leiki sína en um fyrsta tap Grindavíkur var að ræða. 

KR-ingar náðu strax frumkvæðinu í fyrsta leikhluta og byggðu þá upp gott forskot. Að loknum fyrri hálfleik var staðan 47:20 fyrir KR og leikurinn náði aldrei að verða spennandi í síðari hálfleik. 

Hafi einhverjir haldið að tækifæri væri til að ná stigum gegn KR í upphafi móts, á meðan Jóns Arnórs og Pavels nýtur ekki við, þá þurfa þeir sömu líklega eitthvað að endurskoða það. KR-liðið hefur byrjað mótið mjög vel og meistararnir luma á sprækum unglingalandsliðsmönnum sem hafa nýtt tækifærið vel og fá nú dýrmæta reynslu. 

Brynjar Þór Björnsson var sjóðandi heitur í fyrri hálfleik og skoraði þá 20 stig og Darri Hilmarsson spilaði fína vörn á Lewis Clinch. Þegar uppi var staðið var Clinch þó stigahæstur hjá Grindavík með 23 stig en hann var atkvæðameiri í seinni hálfleik þegar munurinn var orðinn mikill. 

Grindvíkingar voru andlausir og kom það á óvart þar sem liðið hafði unnið fyrstu tvo leiki sína. Leikmenn liðsins brotnuðu hins vegar strax í fyrri hálfleik og höfðu eftir það litla trú á sigri að því er virtist. 

Cedrick Bowen lék sinn fyrsta leik með KR og var sterkur undir körfunni en hann virðist þó þurfa að koma sér í betra líkamlegt form. 

40. mín: Leiknum er lokið með öruggum sigri KR 87:62. Íslandsmeistararnir létu unglingaflokkinn spila síðustu mínúturnar. 

35. mín: Staðan er 77:52 fyrir KR. Leikmönnum Grindavíkur hefur tekist að sjá til þess að liðinu verður ekki haldið undir 50 skoruðum stigum í kvöld. Ármann Vilbergsson, einna best þekktur í körfuboltaheiminum fyrir að vera bróðir Páls Axels, var að skora tvær ljómandi huggulegar þriggja stiga körfur með skömmu millibili. 

30. mín: Þriðja leikhluta er lokið. Staðan er 69:35 fyrir KR. Hér stefnir í hrikalega slæmt stigaskor hjá Grindavík nema stigunum rigni hjá þeim í síðasta leikhlutanum. Skemmtilegt er að fylgjast með unglingalandsliðsmanninum Þóri Guðmundi Þorbjarnarsyni hjá KR. Mjög efnilegur leikmaður sem sýndi af og til tilþrif á síðasta tímabili. Nú á hann greinilega meira erindi í meistaraflokk og getur verið í stærra hlutverki en síðasta vetur. 

25. mín: Staðan er 55:30 fyrir KR. Munurinn örlítið minni en hann var í leikhléi. Ólafur Ólafsson var að klikka á troðslu eftir að hafa komist einn upp að körfu KR. Nokkuð sem maður sér ekki á hverjum degi. 

20. mín: Staðan er 47:20 fyrir KR. Fyrri hálfleik er lokið. Miklir yfirburðir meistaranna. Þótt þeir hafi verið sigurstranglegri þá efast ég um að nokkur hafi búist við þessu. Brynjar Þór Björnsson er með 20 stig og stefnir í stórleik hjá honum. Lewis Clinch er með 6 stig fyrir Grindavík en ekkert hefur gengið upp í sókninni hjá liðinu. 

16. mín: Staðan er 37:13 fyrir KR. Grindvíkingar eru eins og áður í vandræðum með að skora og hafa ekki skorað körfu í venjulegum leik síðan á 9. mínútu. Nýi maðurinn hjá KR, Cedrick Bowen, er kominn með 10 stig og er nokkuð sterkur undir körfunni. 

13. mín: Staðan er 33:12 fyrir KR. Sigurður Þorvalds var að setja niður þrist. Því miður er ekki útlit fyrir að þessi leikur verði spennandi. Grindvíkingar hafa ekki skorað í öðrum leikhluta og aðeins tólf stig á þrettán mínútum. 

10. mín: Staðan er 28:12 fyrir KR. Fyrsta leikhluta er lokið. Grindvíkingar þurfa að fara að komast sér í gang ef þeir ætla að eiga möguleika í þessum leik. Brynjar Björnsson er kominn með 12 stig nú þegar. 

8. mín: Staðan er 19:8. KR-ingar byrja þennan leik töluvert betur og eru að byggja upp gott forskot. Lewis Clinch sem leikið hefur vel fyrir Grindavík í upphafi tímabils byrjar rólega. 

4. mín: Staðan er 8:4 fyrir KR. Brynjar Þór Björnsson er heitur í upphafi leiks. Ekki eru það góð tíðindi fyrir Grindvíkinga.  Hann hefur sett niður þrjú erfið skot utan af velli. Tvo þrista og eitt rétt fyrir innan þriggja stiga línuna. Hefur hann því skorað öll stig KR til þessa. 

19:13 Einar Bollason fyrrverandi landsliðsþjálfari og dómarinn þrautreyndi Jón Otti Jónsson sendu dómaranum Leifi Garðarssyni létta kveðju um leið og þeir gengu framhjá honum. Leifur glotti og var greinilega skemmt. 

19:05 KR-ingar tefla fram nýjum bandarískum leikmanni í fyrsta skipti í kvöld, Cedrick Bowen, en hann leysir af hólmi Michael Craion sem lék með KR síðustu tvo vetur. 

Bæði lið hafa unnið báða leiki sína til þessa en KR er auk þess Íslandsmeistari síðustu þriggja ára. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert