Þórsarar voru betri en við

Israel Martin, þjálfari Tindastóls.
Israel Martin, þjálfari Tindastóls. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Israel Martin, þjálfari Tindastóls, var að vonum ekkert hoppandi kátur eftir að Þór frá Akureyri hafði slegið lið hans út úr bikarnum í 16-liða úrslitum.

Spurður hver hans fyrstu viðbrögð eftir leik væru sagði Martin:  „Þetta er bikarleikur og það getur allt gerst. Það er alltaf betra að vera á heimavelli og virkar sem smá forskot í svona leikjum. Þórsarar voru bara betri en við í dag, það er bara svoleiðis.“

Þrátt fyrir að Þór hafi skartað heimavellinum í dag vantaði ekkert upp á þann fjölda stuðningsmanna sem lagði land undir fót og kom keyrandi frá Sauðárkróki:

„Stuðningurinn í dag var frábær, okkur leið nánast eins og á heimavelli. Við eigum bestu stuðningsmenn landsins og þeir fylgja okkur hvert sem við förum. Þeir eiga mikið hrós skilið og ég vona að þeir haldi uppteknum hætti í framtíðinni, þetta eru bestu stuðningsmenn landsins,“ sagði Martin.

Tindastóll er í 1.-3. sæti Dominos-deildar karla og hefur verið að leika vel upp á síðkastið. Martin taldi liðið hins vegar eiga svigrúm til þess að bæta sig, sérstaklega hvað varðar það að spila fast:

„Það er margt sem við getum lært af þessum leik en fyrst og fremst er það að við verðum að vera sterkari inni á vellinum. Við höfum hæðina og þyngdina í þessu liði til þess að spila af krafti og vera sterkir í návígjum og við finnum fyrir því hér í dag að þeir voru fastari en við.“

Martin er mikill keppnismaður og gat ekki tekið undir fullyrðingu blaðamanns um að það hlyti þó að vera ljós í myrkrinu að nú gætu Stólarnir einbeitt sér að fullu að deildinni:

„Auðvitað er þetta bikarleikur og bara deildin eftir en við viljum vinna alla leiki,“ sagði Martin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert