„Svona frammistaða er ekki að fara duga gegn KR“

Hrafn Kristjánsson
Hrafn Kristjánsson Eggert Jóhannesson

„Við hengum í þessum leik og vorum þrjóskir en við vorum alls ekki nógu góðir í þessum leik. Við komum akkurat inn í hann eins og við vildum ekki koma inn í hann. Það er súrt því mér fannst við vera búnir að leiðrétta marga af þeim hlutum sem við vorum að gera rangt í þessum tveim tapleikjum fyrir Grindavíkurleikinn," sagði Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar eftir sigur á Haukum í Dominos deildinni í körfubolta í kvöld. Lokatölur urðu 79:67 og var Hrafn alls ekki sáttur við spilamennsku síns liðs, þrátt fyrir sigurinn.

„Við litum ekki út fyrir að ætla að berjast fyrir sigrinum, það lýsir sér í því að ég sá aldrei fleiri en einn leikmann fara í sóknarfrákast í fyrri hálfleik, við tökum fleiri þriggja stiga skot en tveggja stiga í fyrri hálfleik sem er ekki gott jafnvægi, sem þýðir að við erum að láta ýta okkur úr því sem við erum að gera. Talandinn og samstaðan var ekki sjáanleg hjá mínum mönnum framan af og það er eitthvað sem verður að vera í lagi."

„Ég er ánægður með sigurinn en við vitum allir að svona frammistaða er ekki að fara að duga í næstu viku gegn KR."

Marvin Valdimarsson meiddist á hendi í leiknum og óttast Hrafn um að hann sé handabrotinn.

„Við byrjum á að hvíla lúin bein á morgun og við þurfum að kanna hvort Marvin sé brotinn. Mér fannst þetta ekki lýta vel út hjá honum en að öðru leyti þurfum við að minna okkur aftur á það til hvers við erum í þessu."

Enginn í Stjörnuliðinu skoraði meira en 20 stig í leiknum en Hrafn er ánægður með að stigaskorið dreifðist vel. Hann segir það ekki hafa vantað að einhver tók meira á skarið.

„Ekki þannig, mér finnst ágætt að vera með dreifinguna góða. Það er fínt eftir leik að allir fimm leikmenn á gólfinu eru í þannig hugarástandi að þeir geti sett niður stór skot, þú stýrir því ekki nákvæmlega hver er að taka þessi skot. Ef einhver einn er að skora lungan af stigunum, þá snýst allur varnarleikurinn um að koma boltanum úr höndum þess leikmanns," sagði Hrafn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert