„Þeir áttu bara fantagóðan leik“

Þröstur Leó með boltann í leiknum í kvöld.
Þröstur Leó með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Þröstur Leó Jóhannsson, fyrirliði Þórs Akureyri, var fremur daufur í kvöld eftir að lið hans hafði tapað fyrir Keflavík í Dominos-deildinni í körfubolta. Þór hafði verið á skriði í síðustu leikjum en Keflvíkingar voru grimmari í kvöld og unnu sannfærandi sigur 89:77. Þröstur Leó er sjálfur alinn upp í Keflavík og var tapið því enn sárara.

Hvað hefurðu að segja um leikinn. Þið voruð með í fyrsta leikhlutanum en slæmur kafli í upphafi annars leikhluta gerði þetta erfitt.

„Stemningin var alveg þeirra megin og skotin duttu hjá þeim. Þeir áttu bara fantagóðan leik. Þeir voru greinilega búnir að peppa sig vel fyrir leikinn og komu tilbúnir. Það fóru nánast öll skot ofaní hjá þeim og við áttum bara í tómu basli.“

Lið Þórs fékk aðeins á sig fjórar villur allan fyrri hálfleikinn og bendir það til þess að menn hafi verið full blíðir við Keflvíkinga.

„Við mættum hreinlega ekki nógu ákveðnir til leiks. Við erum búnir að vera grimmir upp á síðkastið og höfum náð að neyða andstæðingana í erfið skot. Það hefur skilað sigrum en í kvöld var þetta ekki til staðar. Þeir fengu að taka allt of þægileg skot enda var nýtingin eftir því.“

Amin Stevens var ykkur erfiður.

„Já, við vorum búnir að stilla okkar leik dálítið upp gegn honum, ætluðum ekki að hleypa honum nálægt körfunni og leyfa honum að sanna sig með skotum af lengra færi. Hann bara þakkaði pent og skilaði öllu niður. Hann átti hreint út sagt frábæran leik. Við vitum það þá bara næst að hann getur meira en að skora undir körfunni. Hann má bara helst ekki fá boltann. Við vorum að skiptast á að þjösnast á honum en það gekk ekki neitt. Hann átti bara svakalegan dag“ sagði fyrirliðinn úr Bítlabænum að skilnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert