Brotlending hjá Þór á Akureyri

Hörður Axel Vilhjálmsson lék mjög vel gegn Þór í kvöld. …
Hörður Axel Vilhjálmsson lék mjög vel gegn Þór í kvöld. Hér gæta hans vel, Þröstur Leó Jóhannsson og George Beamon. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Keflavík sigraði Þór Akureyri 89:77 í 10. umferð Dominos-deildar karla í körfubolta í kvöld en leikið var á Akureyri. Keflavík er því með fjóra sigra.

Eftir gott gengi í deild og bikar í síðustu leikjum þá hlupu Akureyrar-Þórsarar á vegg í kvöld þegar Keflvíkingar mættu þeim á Akureyri í Dominos-deildinni í körfubolta. Þór var búið að vinna fimm leiki í röð en Keflvíkingar voru í tómu tjóni í næst neðsta sætinu í deildinni.

Það var ekki að sjá í þessum leik þar sem gestirnir voru einfaldlega töluvert betri. Þeir voru með yfirhöndina frá 2. leikhlutanum unnu sannfærandi sigur 77:89. Hörður Axel Vilhjálmsson og Amin Stevens voru allt í öllu í leik þeirra og skoruðu þeir samtals 61 stig. Þar af var Amin með 41 stig.

Hann var hreint frábær í leiknum og réðu Þórsarar ekkert við hann. Nokkrir af aðalmönnum Þórs voru í dvala í kvöld en Darrel Lewis og George Beamon stóðu fyrir sínu.
Keflavík sýndi í kvöld að liðið á að vera í toppbaráttu og mun leiðin eflaust liggja upp á við á næstu mánuðum.

Þór A. 77:89Keflavík
Þór Þ. 74:76 Skallagrímur

Fylgst verður með gangi mála hér á mbl.is.

Leikjunum er lokið.

40. Staðan er 76:74 fyrir Skallagrím. Borgnesingar fara með sigur af hólmi í Þorlákshöfn. Tobin Carberry með 32 stig, hvorki meira né minna. Það dugði þó ekki til hjá hans mönnum í kvöld. Flenard Whitfield með 21 stig.

40. Staðan er 89:77 fyrir Keflavík. Í stöðunni 63:75 urðu Þórsarar að gefa þessu séns og þeir lögðu allt í sölurnar á lokamínútunum. Hittnin brást þeim í stóru skotunum og Keflavík sigldi frekar þægilegum sigri í land. Gestirnir þurftu þó að gera sitt og þeir voru mjög yfirvegaðir og völdu sér góð skot sem flest rötuðu niður.

34. Staðan er 74:63 fyrir Keflavík. Keflvíkingurinn í liði Þórs, Þröstur Leó Jóhannsson, byrjaði leikhlutann með körfu og blokk og kveikti í sínum mönnum. Sá logi entist stutt því Keflvíkingar héldu andlitinu og mölluðu áfram af öryggi og festu. Tapaðir boltar komu Þórsurum í koll og allt í einu var staðan orðin 63:74.

30, Staðan er 67:59 fyrir Keflavík. Keflvíkingar héldu forskoti sínu lengi vel í tíu stigum en komust mest í 47:61. Þá loks tóku heimamenn við sér með góðan stuðning af pöllunum. Þeir fóru að saxa niður forskotið en réðu sem fyrr ekkert við Amin. Munurinn varð 57:65 og svo 59:67.

20. Staðan er 51:41 fyrir Keflavík. Áður en hendi var veifað voru Keflvíkingar komnir í 28:42 með Amin Stevens alveg bullsjóðandi heitan. Á þeim tímapunkti var hann með 20 stig. Hann hélt áfram að skora og Keflavík hélt góðu forskoti. Þór gerði smá áhlaup undir lok leikhlutans með því að fiska nokkra bolta með stífri pressuvörn sinni. Þeim tókst að minnka muninn í 41:49 en Hörður Axel átti síðasta orðið og ataðan er 41:51 í hálfleik. Amin Stevens er kominn með 27 stig, takk fyrir.

20. Staðan er 39:34 fyrir Skallagrím. Gestirnir leiða enn og nú með fimm stigum. Lítur vel út hjá þeim.

10. Staðan er 26:26. Keflavík skoraði fyrstu körfuna en síðan virtust Þórsarar ætla að taka leikinn yfir. Danero Thomas og Darrel Lewis voru grimmir og skoruðu mikið undir körfunni. Keflvíkingar gáfust ekkert upp og svöruðu fyrir sig. Þeir jöfnuðu 15:15 og síðan var skipst á körfum. 

10. Staðan er 16:15 fyrir Skallagrím. Borgnesingar eru með eins stigs forystu eftir fyrsta leikhluta. Magnús Þór Gunnarsson hefur verið öflugur en stigahæstur á vellinum er Tobin Carberry með 11 stig fyrir Þór Þ.

0. Lýsingin verður uppfærð jafnóðum.

Amin Khalil Stevens skorar fyrir norðan í kvöld án þess …
Amin Khalil Stevens skorar fyrir norðan í kvöld án þess að Tryggvi Snær Hlinason fái nokkuð að gert. Khalil var frábær í leiknum; gerði 41 stig og tók 17 fráköst. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert