„Hann er alvöru liðsmaður“

Haukur Helgi Pálsson með knöttinn.
Haukur Helgi Pálsson með knöttinn. mbl.is/Árni Sæberg

Haukur Helgi Pálsson hefur breytt ásýnd franska liðsins Rouen eftir að hann fór að spila með því á ný eftir meiðsli. Þetta segir franski vefmiðillinn Paris-Normandie um íslenska landsliðsmanninn sem hefur átt góða leiki með sínu nýja félagi, Rouen, í frönsku B-deildinni að undanförnu.

Haukur, sem lék með Njarðvík síðasta vetur, kom til liðs við Rouen í byrjun tímabilsins en glímdi við meiðsli í mjöðm, ásamt því að hann fékk heilahristing í einum af fyrstu leikjunum. Hann missti þar með af þremur leikjum.

Í síðustu leikjum hefur Haukur hinsvegar verið í stóru hlutverki hjá Rouen, og á miðvikudagskvöldið var liðið einu stigi frá því að verða fyrst til að vinna toppliðið Fos-sur-Mer Provence, sem knúði fram sigur í lokin, 77:76. Haukur skoraði þar 15 stig og átti 8 stoðsendingar, og í leik þar á undan, sigurleik gegn Bourg-en Bresse á útivelli, gerði íslenski landsliðsmaðurinn 20 stig.

Hæfileikar og vinnusemi

„Ég ber mikla virðingu fyrir hæfileikum hans og vinnusemi og allt sem hann gerir er gott fyrir liðið. Það er heiður að spila með honum. Haukur er enginn málaliði hjá okkur, hann er alvöru liðsmaður,“ segir fyrirliði Rouen, Steeve Ho You Fat, við Paris-Nomandie. Þjálfarinn Remý Valin tekur í svipaðan streng. „Við áttum erfitt uppdráttar án Hauks. Hann fer aldrei á taugum, setur mark sitt á leikina og er orðinn okkar liði ákaflega mikilvægur. Við þurfum að byggja okkar leik í kringum hann,“ segir Valin.

Rouen féll úr A-deildinni í vor og hefur átt erfitt uppdráttar það sem af er tímabilinu. Liðið hefur tapað sjö af níu leikjum sínum og er neðst af 18 liðum í deildinni, sem er annars afar jöfn. Martin Hermannsson og samherjar í Charleville eru þar í öðru sæti á eftir hinu ósigraða liði Fos-sur-Mer Provence. vs@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert