Auðvelt hjá Keflavík í Hólminum

Amin Khalil Stevens í liði Keflavíkur var stigahæstur í kvöld.
Amin Khalil Stevens í liði Keflavíkur var stigahæstur í kvöld. Ljósmynd/Skúli B Sigurðsson

Keflavík var ekki í neinum vandræðum í Stykkishólmi þegar liðið heimsótti stigalaust botnlið Snæfells. Sigur Keflavíkur, 97:75, var aldrei í hættu.

Keflavík var með forystu eftir fyrsta hluta 32:13, en Snæfell hélt þó í við gestina og staðan í hálfleik var 54:38. Forskoti Keflvíkinga var þó ekki ógnað, og þeir héldu uppteknum hætti eftir hlé. Þegar yfir lauk munaði svo 22 stigum, lokatölur 97:75.

Keflavík er með 14 stig og fékk dýrmæt stig í baráttunni sem ríkir um miðja deild. Snæfell hefur hins vegar tapað öllum sínum leikjum og er á botninum.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

40. Leik lokið, lokatölur 75:97. Þetta var aldrei spurning hjá Keflavík. Amin Khalil Stevens var stigahæstur með 33 stig og tók 19 fráköst. Hjá Snæfelli var Árni Elmar Hrafnsson með 14 stig.

30. Þriðja leikhluta lokið, staðan er 58:75. Það hefur verið jafnræði með liðunum í þessum þriðja hluta en Snæfellingar eiga erfitt verk fyrir höndum að brúa bilið. Amin er kominn með 24 stig og 17 fráköst hjá Keflavík en hjá heimamönnum er Þorbergur Helgi fremstur í flokki með 11 stig.

20. Hálfleikur, staðan er 38:54. Snæfellingar eru ekkert að leggja árar í bát þó á móti blási. Keflvíkingar ná ekki að hrista þá alveg af sér í öðrum hluta, en Amin og Magnús Már eru enn atkvæðamestir á vellinum með 16 og 15 stig. Hjá Snæfelli er Árni Elmar Hrafnsson með sjö stig.

10. Fyrsta leikhluta lokið, staðan er 13:32. Það er alveg ljóst hvert þessi leikur stefnir. Keflavík skoraði fyrstu átta stigin og hefur bara bætt í frá því. Amin Khalil Stevens hefur skorað 14 stig fyrir þá og Magnús Már Traustason er með 12.

1. Leikurinn er hafinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert