Þórsarar unnu nýliðaslaginn

Darrel Lewis átti mjög góðan leik hjá Þór.
Darrel Lewis átti mjög góðan leik hjá Þór. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Þór frá Akureyri vann góðan 100:89 sigur á Skallagrím í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld en leikið var í Fjósinu í Borgarnesi. Með sigrinum jöfnuðu Þórsarar nafna sína frá Þorlákshöfn á stigum í deildinni og eru þau saman í 4. sæti með 16 stig. Skallagrímur er enn í 10. sæti, aðeins tveim stigum á undan Haukum sem eru í fallsæti.

Borgnesingar fóru betur af stað og var staðan orðin 14:7 eftir nokkrar mínútur. Leikur þeirra var meira sannfærandi en hjá gestunum og munaði níu stigum á liðunum eftir 1. leikhlutann, staðan 33:24. Sigtryggur Arnar Björnsson fór mjög vel af stað hjá Skallagrím á meðan Darrel Lewis hreinlega hélt Þórsurum á floti þar sem hann skoraði 16 af fyrstu 24 stigum þeirra.

Þórsarar svöruðu í 2. leikhluta og var staðan jöfn, 37:37 þegar leikhlutinn var hálfnaður. Stuttu síðar voru norðanmenn komnir með fimm stiga forystu, 41:46. Skallagrímur kláraði 2. leikhlutann hins vegar betur og var staðan í hálfleik 51:50, heimamönnum í vil.

Þriðji leikhlutinn var mjög jafn framan af en Þórsarar kláruðu hann býsna vel og var Darrel Lewis sérstaklega sterkur undir lok hans. Lewis var helsta ástæða þess að Þórsarar voru með 74:66 forystu þegar síðasti leikhlutinn hófst.

Þegar sex mínútur voru eftir skoraði Þröstur Leó þriggja stiga körfu og kom Þórsurum í 71:81. Leikmenn Skallagríms virtust brotna eftir það, því eftirleikurinn var auðveldur fyrir Þór. Darrel Lewis skoraði 35 stig fyrir Þór, eins og Flenard Whitfield hjá Skallagrím.

Fylgst var með gangi mála á mbl.is. 

40. Leik lokið. Frábær sigur hjá Þór Akureyri. 

34. Staðan er 71:81. Þröstur Leó Jóhannsson skellir niður þrist fyrir Þórsara og kemur þeim tíu stigum yfir. Hann fagnar mikið og Skallarnir taka leikhlé. Skallagrímur hefur sex mínútur til að koma til baka.  

30. Þriðja leikhluta er lokið og staðan er 66:74. Þórsarar kláruðu 3. leikhluta gríðarlega vel og eru þeir með átta stiga forskot. Darrel Lewis er búinn að fara á kostum og er hann með 31 stig. 

25. Staðan er 57:59. Varnir beggja liða fara töluvert betur af stað í seinni hálfleiknum en þær gerðu í þeim fyrri. Enn er leikurinn hnífjafn og spennandi. 

20. Staðan er 51:50 í hálfleik. Þórsarar voru komnir með fimm stiga forskot en þá svöruðu Skallarnir vel og komust aftur yfir. Aðeins eitt stig skilur liðin af og er væntanlega spennandi seinni hálfleikur framundan. Sigtryggur er með 15 stig fyrir Skallagrím og Lewis 18 hjá Þór. 

17. Staðan er 41:46. Gestirnir að norðan eru komnir í forystu eftir þessa ljómandi góðu byrjun hjá Skallagrím. George Beamon er kominn meira inn í leikinn og er allt annað að sjá leik Þórsara síðustu mínútur. 

14. Staðan er 35:34. Þórsarar fara mjög vel af stað í 2. leikhluta og munurinn orðinn eitt stig á augabragði. Finnur Jónsson, þjálfari Skallanna er ekki sáttur og tekur leikhlé, skiljanlega. 

10. 1. leikhluta er lokið og staðan er 33:24. Heimamenn hafa verið mun betri í seinni hálfleik og er sóknarleikur þeirra töluvert meira sannfærandi en gestanna sem hafa ekki komist í gang. Sigtryggur Arnar Björnsson er kominn með 12 stig fyrir Skallagrím og Darrel Lewis 14 hjá Þór. 

5. Staðan er 15:9. Heimamenn fara vel af stað og komust þeir í 14:7. Staðan, núna þegar fyrsti leikhluti er hálfnaður, er 15:9. Sigtryggur Arnar Björnsson er með sjö stig hjá Skallagrím. 

2. Staðan er 8:5. Leikurinn fer vel af stað og það er mikið skorað í upphafi. Maggi Gunn og Darrel Flake eru búnir að setja niður sitt hvorn þristinn fyrir heimamenn á meðan George Beamon skellti niður einum þrist fyrir gestina. 

1. Leikurinn er hafinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert