Tap hjá Golden State og Cleveland – Westbrook jafnaði Bird

Miami fagnar sigrinum nauma á Golden State í nótt.
Miami fagnar sigrinum nauma á Golden State í nótt. AFP

Golden State Warriors töpuðu sínum sjöunda leik á tímabilinu í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Meistarar Cleveland Cavaliers töpuðu sínum þrettánda leik.

Dion Waiters gerði útslagið í sigri Miami Heat á Golden State, 105:102, en hann skoraði þriggja stiga körfu á lokasekúndu leiksins. Miami var tíu stigum yfir þegar fjórar mínútur lifðu leiks en Golden State hafði tekist að jafna metin 12 sekúndum fyrir leikslok. Það dugði ekki til.

Waiters átti stórleik og skoraði 33 stig fyrir Miami. Kevin Durant var stigahæstur hjá Golden State með 27 stig en Stephen Curry skoraði 21 stig, tók 10 fráköst og átti 8 stoðsendingar.

Golden State hefur nú unnið 38 leiki en tapað 7 og er á toppi vesturdeildar. San Antonio Spurs, sem unnu Brooklyn Nets í nótt, eru í 2. sæti með 35 sigra og 9 töp.

Meistarar Cleveland Cavaliers eru á toppi austurdeildar en þeir töpuðu einnig naumlega í nótt, 124:122, gegn New Orleans Pelicans. Pelicans voru án Anthony Davis en Terrence Jones skoraði 36 stig og Jrue Holiday 33.

Russell Westbrook var hetja Oklahoma City Thunder en hann skoraði sigurkörfu, 1,4 sekúndu fyrir leikslok, gegn Utah Jazz, 97:95. Westbrook skoraði þrennu í 22. sinn í vetur og í 59. sinn á ferlinum, en hann er þar með orðinn jafn Larry Bird í 5. sæti yfir þrennukónga NBA-sögunnar. Westbrook skoraði 38 stig, tók 10 fráköst og átti 10 stoðsendingar.

Úrslit næturinnar:
Charlotte - Washington 99:109
Brooklyn - San Antonio 86:112
Atlanta - LA Clippers 105:115
Miami - Golden State 105:102
Detroit - Sacramento 104:109
Milwaukee - Houston 127:114
New Orleans - Cleveland 124:122
Indiana - New York 103:109
Utah - Oklahoma 95:97

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert