„Erum með hörkumannskap“

Sveinbjörn Claessen skoraði 16 stig fyrir ÍR gegn KR í …
Sveinbjörn Claessen skoraði 16 stig fyrir ÍR gegn KR í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sveinbjörn Claessen segir mikinn stíganda vera í ÍR-liðinu þrátt fyrir tap gegn Íslands- og bikarmeisturum KR á útivelli í Dominos-deildinni í kvöld, 95:73.

ÍR er í hörkubaráttu um sæti í úrslitakeppninni en þegar einn leikur er eftir í 18. umferð er staðan í deildinni orðin verulega spennandi. ÍR á fjóra leiki eftir og er með 16 stig í 9. sæti. Þrjú lið eru með 18 stig þar fyrir ofan. 

„Við erum að bæta okkur í hverjum einasta leik og það vill enginn koma í Seljaskóla og spila eins og stemningin er þar þessa dagana. Við erum að spila betur og betur. Er það mín upplifun í það minnsta þótt enginn sé dómari í eigin sök,“ sagði lögfræðingurinn glottandi og gat ekki stillt sig um að koma að einum frasa úr vinnunni. 

„Við hljótum að horfa til þess að fikra okkur upp töfluna. Alla vega eins og liðið er mannað. Við erum með hörkumannskap sem er á pari við liðin í sætum 4 - 11 enda eru liðin ótrúlega jöfn,“ sagði Sveinbjörn en einnig er rætt við hann og Þóri Guðmund Þorbjarnarson KR-ing í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert