KR aftur í toppsætið

Matthías Orri Sigurðarson sækir að Pavel Ermolinski.
Matthías Orri Sigurðarson sækir að Pavel Ermolinski. mbl.is/Stella Andrea Guðmundsdóttir

Íslands- og bikarmeistarar KR eru aftur komnir í toppsæti Dominos-deildar karla í körfuknattleik eftir sigur á ÍR, 95:73, í Vesturbænum.

KR er í mikilli baráttu um efsta sætið í deildinni. Liðið er með 28 stig eins en Stjarnan er með 26 og Tindastóll er með 24 en þessi lið eiga leik til góða á KR. Þau mætast annað kvöld á Króknum.

ÍR er með 16 stig og framundan virðist vera mikil barátta hjá ÍR um sæti í úrslitakeppninni. 

Hlutskipti liðanna í síðustu umferð var ólíkt. ÍR vann öruggan sigur á Haukum 91:69 á fimmtudagskvöldið en KR tapaði stórt fyrir Þór á Akureyri á föstudaginn 83:65. 

KR-ingar ætluðu greinilega ekki að tapa öðrum leiknum í röð og höfðu góð tök á leiknum í seinni hálfleik eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik. Jón Arnór Stefánsson var heitur og hitti úr fimm af fyrstu sjö þriggja stiga skotum sínum. Þórir Guðmundur Þorbjarnarson var besti maður KR með 20 stig. Matthías Orri Sigurðarson var stigahæstur hjá ÍR með 18 stig en Sveinbjörn Claessen átti góðan leik og gerði 16 stig.

40. mín: Leiknum er lokið með sigri KR 95:73. Yngstu leikmenn liðanna luku leiknum á síðustu mínútunum. 

34. mín: Staðan er 84:61 fyrir KR. Þórir er nú að sýna áhorfendum hvað hann getur og er kominn í 20 stig. Skoraði snyrtilega körfu eftir glæsilegt gegnumbrot.

32. mín: Staðan er 78:59 fyrir KR. Darri Hilmarsson var að fá sína fimmtu villu og er farinn út af. 

30. mín: Staðan er 76:59 fyrir KR. Sautján stiga forysta fyrir síðasta leikhlutann. Darri Hilmarsson fékk þrjár villur í þriðja leikhluta og er samtals með fjórar. Það kemur varla að sök fyrir KR þar sem munurinn er þetta mikill. Sveinbjörn Claessen hefur spilað vel fyrir ÍR og er með 16 stig en Alawoya er stigahæstur hjá ÍR með 18 stig. 

25. mín: Staðan er 69:49 fyrir KR. Jón Arnór ætlar ekki að tapa öðrum leiknum í röð. Hann hefur sett niður fimm þrista í sjö tilraunum. 

22. mín: Staðan er 58:42 fyrir KR. Meistararnir skora fyrstu sjö stigin í síðari hálfleik og virðast vera að slíta sig frá ÍR-ingum. Þórir stal boltanum og tróð. 

20. mín: Staðan er 51:42 fyrir KR. Fyrri hálfleik er lokið. Ágætt forskot KR-inga en ÍR-ingar eru baráttuglaðir og líklegir til að selja sig dýrt í síðari hálfleik. Harkan hefur aukist eftir því sem leið á fyrri hálfleik. Slatti af villum, níu á KR og ellefu á ÍR, og leikmenn eru orðnir fremur pirraðir. Þórir skoraði 12 stig fyrir KR og Philip Alawoya gerði 10. Hjá ÍR er Sveinbjörn með 10 stig og Trausti Eiríksson 9. 

17. mín: Staðan er 47:36 fyrir KR. Jón Arnór að setja niður huggulegt þriggja stiga skot. Snéri sér að stuðningsmönnum ÍR þegar hann hljóp til baka og setti fingurinn upp að munninum, líkt og hann væri að sussa á þá. Gaman að þessu. Stuðningsmenn ÍR hafa verið fjörugir en eru reyndar með einhvern lúður sem gefur frá sér afskaplega leiðinleg hljóð. 

16. mín: Staðan er 42:35 fyrir KR. Leikurinn er í járnum eins og er. Sigurður Þorvalds er farinn að láta að sér kveða og hefur skorað 5 stig fyrir KR á skömmum tíma. 

13. mín: Staðan er 37:29 fyrir KR. Meistararnir hafa aukið forskot sitt um fimm stig í upphafi annars leikhluta og Quincy Hankins-Cole var að fá sína þriðju villu hjá ÍR og það var sóknarvilla. Hann er vægast sagt pirraður yfir þessum dómi. 

10. mín: Staðan er 29:27 fyrir KR. Áhugaverðum fyrsta leikhluta er lokið. Matthías Orri Sigurðarson skoraði þriggja stiga körfu fyrir ÍR þegar þrjár sekúndur voru eftir minnkaði muninn. Mikill hraði í leiknum í fyrsta leikhluta. Þórir byrjaði inn á hjá KR og er með 10 stig og hefur sett niður tvo þrista. Sveinbjörn Claessen hefur sett tvo þrista fyrir ÍR og er með 10 stig. Arnar Hermannsson spilaði töluvert í bakverðinum fyrir KR í fyrsta leikhluta en Brynjar Þór Björnsson er ekki leikfær frekar en í síðasta leik. 

4. mín: Staðan er 15:11 fyrir KR. Þórir Guðmundur Þorbjarnarson er mjög sprækur og hefur gert sjö stig. Fjögur eftir hraðaupphlaup. Annars hafa þristarnir gengið á víxl. Fjórir í röð, tveir frá hvoru liði. 

KR er í mikilli baráttu um efsta sætið í deildinni. Liðið er með 26 stig eins og Stjarnan en Tindastóll er með 24. ÍR er með 16 stig í 8. sæti eins og Keflavík og Njarðvík. Framundan virðist því vera mikil barátta hjá ÍR um sæti í úrslitakeppninni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert